Sport

Ingi­björg og Matthías Örn Ís­lands­meistarar í pílu­kasti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslandsmeistarar í pílu 2021: Matthías Örn og Ingibjörg Magnúsdóttir.
Íslandsmeistarar í pílu 2021: Matthías Örn og Ingibjörg Magnúsdóttir. Íslenska Pílukastsambandið

Um helgina fór Íslandsmótið í pílukasti fram. Það voru þau Ingibjörg Magnúsdóttir í Pílukastfélagi Hafnafjarðar og Matthías Örn Friðriksson í Pílufélagi Grindavíkur sem fögnuðu sigri og eru Íslandsmeistarar í pílukasti árið 2021.

Vinsældir pílukasts hér á landi fara ört vaxandi en í ár tóku yfir 100 manns þátt. Það er rúm 30 prósent aukning frá því á síðasta ári.

Ingibjörg var þarna að vinna sinn fjórða Íslandsmeistaratitil á ferlinum. Þá var Matthías Örn fyrstur pílukastara til að verja titil sinn en hann landaði einnig Íslandsmeistaratitlinum á síðasta ári.

Ingibjörg spilaði heilt yfir best allra kvenna í mótinu. Hún var með 52,86 að meðaltali, tók einnig út hæsta útskotið (100) og átti einnig fæstar pílur (19 pílur). Svipað var uppá teningnum í karlaflokki en Matthías var með hæsta meðaltalið (72,01), tók flest 180 (6) og átti annað hæsta útskotið (130).

Ingibjörg lagði Brynju Herborgu Jónsdóttur úr Píludeild Þórs í úrslitum. Sú viðureign fór alla leið í oddalegg þar sem Ingibjörg hafði betur. Matthías Örn átti töluvert auðveldari úrslitaleik en hann lagði Pál Árna Pétursson, einnig úr Pílufélagi Grindavíkur, 7-2 í úrslitum.

Nánar má lesa um mótið á vef dart.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×