Leikjavísir

Gefa GTA V út í nóvember, enn eina ferðina

Samúel Karl Ólason skrifar
Grand-Theft-Auto-poster

Leikjafyrirtækið Rockstar tilkynnti í dag að Grand Theft Auto 5 myndi koma út í uppfærðri útgáfu í nóvember. Þá væri hann sniðinn að nýjustu kynslóð leikjatölva Microsoft og Sony.

GTA V kom fyrst út árið 2013, fyrir PlayStation 3 og Xbox 360. Hann var svo seinna uppfærður fyrir PS4 og Xbox One og svo enn seinna fyrir PC-tölvur. Nú er komið að PS5 og Xbox Series X.

Í yfirlýsingu frá Rockstar, framleiðanda leiksins, segir að leikurinn verði búinn nokkrum viðbótum og muni líta mun betur út. Þá verði sérstaklega búið að bæta við fjölspilunarhluta GTA, sem hefur notið gífurlegra vinsælda um árabil.

GTA V er einhver vinsælasti tölvuleikur heimsins og árið 2018 náði leikurinn þeim áfanga að verða arðbærasta skemmtanaafurð sögunnar. Þá höfðu Rockstar og Take Two þénað um sex milljarða dala af honum.

Framleiðslukostnaður leiksins var 265 milljónir dala, sem gerði hann að dýrasta tölvuleik sem hefur verið gerður.

Aðdáendur seríunnar bíða spenntir eftir fregnum af næsta leik, GTA 6, en enn sem komið er hefur Rockstar varist alla fregna af honum. Undanfarna daga hefur stórt kort verið í dreifingu á netinu sem sagt er vera úr GTA 6 og vera af borginni Vice City, sem hefur áður komið fyrir í seríunni. Það hefur þó ekki verið staðfest

Rockstar gaf síðast út leikinn Red Dead Redemption 2 í otóber 2018.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.