Íslenski boltinn

Kjartan Henry: Þetta er ó­geðs­lega pirrandi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason var að vonum ósáttur eftir að KR missti leikinn við HK niður í jafntefli í lokin.
Kjartan Henry Finnbogason var að vonum ósáttur eftir að KR missti leikinn við HK niður í jafntefli í lokin. vísir/getty

„Þetta er eins svekkjandi og það gerist,“ sagði Kjartan Henry Finnbogason, leikmaður KR, eftir 1-1 jafntefli liðsins við HK á Meistaravöllum í Vesturbæ í kvöld. HK jafnaði undir lokin en KR hefur enn ekki unnið leik á heimavelli í sumar.

„Svona er fótboltinn. Það er alveg sama á móti hverjum þú spilar, ef þú nýtir ekki færin geturu fengið það í bakið og við hefðum átt að vera búnir að klára leikinn. Þetta er ógeðslega pirrandi en við verðum bara að laga þetta, það er ekkert annað í boði.“ segir Kjartan Henry enn fremur.

HK ógnaði KR-ingum strax í upphafi leiks í kvöld er liðið fékk ágætis færi á fyrstu fjórum mínútunum en ógnuðu varla meir þar til Stefan Ljubicic jafnaði leikinn undir lokin.

„Mér fannst við bara miklu betri, þeir áttu ekki neitt, ég man ekki til þess að þeir hafi átt færi í leiknum. Þetta er ömurlegt en er bara okkur að kenna,“ segir Kjartan Henry sem var þá spurður út í heimavallargengi KR-inga sem eiga enn eftir að vinna leik þar. Töp gegn KA og Val komu fyrir jafnteflið við HK í kvöld.

„Ég held að það skipti engu máli hvort við spilum á heimavelli eða útivelli, bara ef við nýtum ekki færin okkar og verjumst svona þegar lítið er eftir getum við bara sjálfum okkur um kennt. Við verðum bara að laga þetta ekki mikið seinna en á morgun.“ sagði Kjartan Henry.

KR fær tækifæri strax í næsta leik að ná fyrsta heimasigrinum er ÍA kemur í heimsókn í Vesturbæ á sunnudagskvöld.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×