Bíó og sjónvarp

Jón Viðar sóttist eftir hlut­verki hand­rits­höfundar fyrir Kötlu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Baltasar Kormákur segir Jón Viðar hafa sóst eftir því að vera einn handritshöfunda Kötlu.
Baltasar Kormákur segir Jón Viðar hafa sóst eftir því að vera einn handritshöfunda Kötlu. Vísir

Baltasar Kormákur segir gagnrýni leikhúsgagnrýnandans Jóns Viðars Jónssonar um Kötlu, nýja Netflix-seríu Baltasars, á lausum grunni byggða. Hún stingi sérstaklega í stúf þar sem Jón hafi óskað eftir því að fá að taka þátt í handritsgerð fyrir þættina.

„Ég hitti hann í sundi af tilviljun og hann fór að ræða við mig og svo fór hann að bjóða fram krafta sína í skrifteymið þegar ég sagði honum að ég væri með þessa þætti í bígerð. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið því maðurinn hefur verið að rakka niður allt sem ég hef gert í fimmtán ár,“ segir Baltasar í samtali við Vísi.

„Ég auðvitað þáði það ekki. Í ljósi þessara árása skýtur þetta skökku við. Ég kom alveg af fjöllum að maðurinn vildi vinna fyrir mig, fyrst honum finnst ég svona lélegur og svo vissi ég ekki til þess að hann hafi skrifað eitt einasta kvikmyndahandrit þannig að ég veit ekki hvers vegna ég hefði átt að ráða hann,“ segir Baltasar.

„Hann er í raun bara nettröll“

Hann segir gagnrýni Jóns Viðars varla teljast til gagnrýni lengur. Jón Viðar hafi fátt jákvætt haft að segja um kvikmyndir og þætti Baltasars í fimmtán ár og jaðri afstaða Jóns Viðars við persónuárásir.

„Þetta er meira en gagnrýni, þetta eru persónuárásir og enginn rökstuðningur eða kafað neitt ofan í málið. Hann er í raun bara nettröll og þetta á ekkert bara við mig heldur við marga í bransanum, sérstaklega þá sem hafa notið árangurs erlendis,“ segir Baltasar og nefnir þar að Benedikt Erlingsson, Þorleif Arnarsson, Hlyn Pálmason og Gísla Örn Garðarsson hafi fengið svipaða úttekt hjá Jóni eftir að þeir fóru að fá viðurkenningu erlendis.

„Hann er ekki einu sinni með opinbera stöðu sem gagnrýnandi, hann er bara nettröll, af því að hann vann einu sinni gagnrýnandi virðist hann fá þetta ofboðslega pláss til að hrauna yfir fólk. Það er engin önnur stétt sem situr undir þessu,“ segir Baltasar.

„Allt sem er framsækið og gengur vel ræðst hann á.“

„Hann hefur ráðist á allt sem ég hef gert eftir 2006. Hann fær auðvitað mikla athygli þegar hann ræðst á mig og þetta hefur verið viðverandi og þetta jaðrar við dónaskap. Hann er að hæðast að fólki og þetta er orðið svo yfirdrifið hjá honum. Þetta er búið að vera svona í 15 ár,“ segir Baltasar.

Nefnir hann þar að Jón Viðar hafi meðal annars gagnrýnt fyrirhugaða þáttagerð Baltasars byggða á Sjálfstæðu fólki, skáldsögu Halldórs Laxnes, sem var hvorki þá né nú komin í framleiðslu. Þá hafi gagnrýni hans um Gerplu, Ófærð I og II og Everest verið andstyggileg.

„Hann réðst á Sjálfstætt fólk sem ég er ekki einu sinni búinn að gera,“ segir Baltasar.

Hann segist aðeins einu sinni hafa svarað gagnrýni Jóns Viðars árið 2010 í DV.

„Þá fékk ég hringingu frá honum um leið og blaðið kom úr prentun þar sem hann hellti sér yfir mig, hálfgrátandi í símanum. Þá hafði ég setið undir þessu í áratugi af hans hendi en hann þoldi ekki mikla gagnrýni sjálfur,“ segir Baltasar.

„Óvenjulegt efni og við förum ótroðnar slóðir“

Að öðru leyti segist Baltasar ánægður með viðbrögðin við þáttunum.

„Ég var að kafa ofan í þetta og þeir sem eru hrifnir eru mjög hrifnir. Það finnst mér áhugavert. Það er allt í lagi að það séu skiptar skoðanir. Þetta er auðvitað óvenjulegt efni og við erum að fara ótroðnar slóðir,“ segir Baltasar.

Netverjar hafa sérstaklega tekið vel í þættina og logaði Twitter af jákvæðum viðbrögðum áhorfenda. Margir voru ánægðir með að heyra móðurmálið á Netflix og margir sögðust ekki geta hætt að horfa.

Þættirnir hafa víðast hvar fengið góðar viðtökur og eru nú með einkunnina 7,5 á IMDB og 8,5 á Rotten Tomatoes.


Tengdar fréttir

„Ég myndi alltaf taka þetta í hámhorfi“

„Hún er yfirþyrmandi,“ segir Guðrún Ýr Eyfjörð, spurð hvernig tilfinningin sé að sjá endanlega útgáfu af tæplega tveggja ára vinnu nú þegar íslenska þáttaröðin Katla hefur verið frumsýnd á Netflix.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×