Bíó og sjónvarp

Katla klífur topp­lista út um allan heim

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Ingvar E. Sigurðsson fer með hlutverk í þáttunum sem frumsýndir voru 17. júní.
Ingvar E. Sigurðsson fer með hlutverk í þáttunum sem frumsýndir voru 17. júní. NETFLIX/LILJA JÓNSDÓTTIR

Þáttaröðin Katla hefur farið sigurför um heiminn síðustu daga. Þremur dögum eftir frumsýningu var serían komin á topplista Netflix í sextíu og sex löndum.

Netflix gefur sjaldan upp fjölda spilana fyrir þætti og bíómyndir. Veitan heldur aftur á móti utan um topp tíu lista fyrir vinsælasta efni hvers lands fyrir sig og er hægt að fletta þeim upp á síðum á borð við FlixPatrol.

Á síðunni má meðal annars sjá að Katla hefur ratað inn á slíka lista víða um heim, meðal annars í Suður-Ameríku, Mið-Austurlöndum, Afríku og vitanlega Evrópu.

Einnig má sjá að þáttaröðin rauk upp í fyrsta sætið á Netflix á Íslandi strax eftir frumsýningu og hefur haldið því sæti síðan. Enda hafa þættirnir verið á allra vörum hér á landi.

Þáttaröðin er í öðru til þriðja sæti í Króatíu, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Grikklandi, Noregi, Póllandi, Sviss, Úrúgvæ og Svíþjóð. En þættirnir gerast að hluta til í Svíþjóð og fer sænska leikkonan Aliette Opheim með hlutverk í þáttunum.

Sænska leikkonan Aliette Opheim fer með stórt hlutverk í þáttaröðinni Kötlu.NETFLIX/LILJA JÓNSDÓTTIR

Vaxandi vinsældir

Þáttaröðin er meðal annars á topplistum í Bretlandi og Ástralíu og datt einnig inn á lista í Bandaríkjunum í gær, sem þykir mjög eftirsóknarvert. Þá fær þáttaröðin að meðaltali 5,6 í einkunnagjöf á Netflix en 7,3 á vefsíðunni IMDb.

Daginn eftir frumsýningu var þáttaröðin á helmingi færri vinsældalistum en hún er nú. Síðustu listar birtust í gær og verður spennandi að fylgjast með vinsældum þáttanna sem virðast aðeins fara vaxandi.

Katla var frumsýnd á Netflix 17. júní og strax aðgengileg út um allan heim.Netflix/Lilja Jónsdóttir

Tengdar fréttir

„Ég myndi alltaf taka þetta í hámhorfi“

„Hún er yfirþyrmandi,“ segir Guðrún Ýr Eyfjörð, spurð hvernig tilfinningin sé að sjá endanlega útgáfu af tæplega tveggja ára vinnu nú þegar íslenska þáttaröðin Katla hefur verið frumsýnd á Netflix.

Birta fyrstu stikluna úr Kötlu

Fyrsta stiklan úr Kötlu, fyrstu íslensku þáttaröðinni sem framleidd er fyrir Netflix, hefur verið birt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.