Íslenski boltinn

Ólafur Jóhannesson tekur við FH-liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Jóhannesson er nýr þjálfari FH-liðsins.
Ólafur Jóhannesson er nýr þjálfari FH-liðsins. Instagram/@fhingar

Ólafur Jóhannesson er kominn aftur til FH og mun stýra liðinu út tímabilið ásamt Davíð Þór Viðarssyni.

Logi Ólafsson hætti sem þjálfari FH fyrr í dag en Hafnarfjarðarliðið tapaði 4-0 á móti Blikum í gær og hefur aðeins náð í eitt stig út úr síðustu fimm leikjum sínum í Pepsi Max deildinni.

Ólafur Jóhannesson stýrði FH til fyrsta Íslandsmeistaratitils félagsins fyrir sautján árum síðan en hann vann fjóra stóra titla með FH liðinu frá́ 2003 til 2007. Liðið varð Íslandsmeistari 2004, 2005 og 2006 og vann síðan bikarinn 2007.

Ólafur tekur nú við FH liðinu í fjórða sinn á ferlinum en hann kvaddi með fyrsta bikarmeistaratitli félagsins árið 2007 til að taka við íslenska landsliðinu.

Ólafur kom FH upp í efstu deild sumarið 1988 og undir hans stjórn náði liðið öðru sæti í efstu deild sumarið á eftir. Ólafur var þá spilandi þjálfari en meðþjálfari hans var Viðar Halldórsson, faðir Davíðs Þórs. Ólafur nær nú því að þjálfar FH-liðið með feðgunum báðum.

Ólafur stýrði FH-liðinu út 1991 tímabilið. Hann tók aftur við liðinu fyrir 1995 tímabilið en var látinn fara eftir þrettán leiki. Ólafur tók síðan við FH í þriðja sinn sumarið 2003. Þá tókst honum að brjóta ísinn og vinna fyrsti Íslands- og bikarmeistaratitla félagsins.

Það verður nóg að gera hjá Ólafi og Davíð Þór á næstunni því fram undan eru leikir í bikar, deild og Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×