Saga hrútsins Páls byrjaði frekar sorglega og vildi hann enginn fyrstu dagana.
„Kindin sem hann er undan drapst þannig að hann var í rauninni heimalingur, það var ekkert hægt að koma honum undir aðra kind, það var fullreynt,“ segir Ingólfur Arnarson móðurbróðir Steins Þorra í samtali við Vísi.
Steinn var um þriggja ára aldur þegar Páll Stefánsson kom í heiminn en hann er oftast kallaður Lambi. Samband þeirra varð sterkt strax og þeir hittust fyrst.

„Þeir urðu svona svakalega flottir vinir. Alltaf þegar hann fór út að hjóla á þríhjólinu sínu, og eiginlega bara hvert sem hann fór, þá fór Lambi alltaf með. Hann var eins og hundur,“ útskýrir Ingólfur.
Þrjú ár eru liðin og geta Steinn Þorri og Lambi enn skemmt sér konunglega saman.

„Þeir eru ennþá svona. Lambi er með hinum rollunum núna en þegar Steinn er á svæðinu þá eru þeir saman.“
Steinn Þorri og Lambi voru að leika úti á túni ásamt dóttur Ingólfs, Ingu Lillý Ingólfsdóttur, þegar ljósmyndara bar að garði. Það vakti athygli RAX að Steinn Þorri skellti sér á bak á Lamba sínum og hljóp hann með hann um hagana.

„Ég veit ekki hvort að hann haldi að hann sé hestur núna, Steinn má fara á bak á honum og það er alltaf stuð á honum,“ segir Ingólfur.

Hann segir að nafnið Páll Stefánsson hafi verið einhver einkahúmor fjölskyldunnar en flestir kalla hann þó alltaf Lamba.





Þó að Lambi haldi stundum að hann sé einn af hestunum, er hann samt líka oft eins og einn af hundunum á bænum.
„Ef hann er í rolluhópnum þá er hann sá eini sem er hægt að nálgast eða kalla á, hann kemur bara eins og hundur,“ segir Ingólfur.
