Lífið

Hlaupa á flug­braut Reykja­víkur­flug­vallar í kvöld

Atli Ísleifsson skrifar
Hluti flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli.
Hluti flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Isavia mun opna Reykjavíkurflugvöll fyrir hlaupurum sem þátt taka í Miðnæturhlaupi Isavia í kvöld. Er það gert í tilefni af áttatíu ára afmæli flugvallarins.

Hlaupurum verður þannig hleypt inn á flugbrautina, en ræst verður klukkan 23:30 í kvöld.

Á heimasíðu hlaupsins segir að hlaupið byrji fyrir framan viðbúnaðarþjónustu flugvallarins, þar sem hleypt verði inn að framan og í gegnum bygginguna.

Ákveðið verður á hlaupadegi [í dag] hvort hlaupið verður réttsælis eða rangsælis og fer það eftir vindáttinni, en boðið er upp á þriggja kílómetra hring sem hlaupinn er einu sinni eða tvisvar – það er þrír kílómetrar eða sex.

„Gæta þarf þess að vera ekki með neina lausa muni á sér eða í vösum og tilkynna samstundis flugvallayfirvöldum ef fólk telur sig hafa týnt einhverju út á flugbraut.

Með reglulegu millibili verða viðbragðsbílar flugvallaþjónustunnar án ljósa. Flugvöllurinn er lokaður en sjúkra- og neyðarflug er alltaf möguleiki og koma þau þá með fyrirvara. Ef viðbragðsbílar kveikja á blikkljósum og blása í þokulúðrana, þurfa hlauparar að ryðja flugbrautina strax yfir á akbrautina og koma sér tilbaka að startinu,“ segir um hlaupið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.