Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Tindastóll 0-1 | Stólarnir stóðu af sér storminn og unnu dísætan sigur Sindri Sverrisson skrifar 6. júlí 2021 21:10 Tindastólskonur stigu sigurdans og féllust í faðma eftir sigurinn í Garðabæ í kvöld. vísir/Sindri Tindastóll vann frækinn 1-0 sigur gegn Stjörnunni í Garðabæ í kvöld og krækti þar með í sín fyrstu stig á útivelli í sumar, í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. María Dögg Jóhannesdóttir kom Tindastóli yfir snemma leiks og liðinu tókst að hanga á forystunni þrátt fyrir að Stjarnan skapaði sér urmul færa. Amber Michel átti stórkostlegan leik í marki gestanna sem allir lögðu þó sitt að mörkum – jafnvel með kröftugum köllum úr stúkunni. Tindastólskonur stigu sigurdans eftir leik og það var augljóst hve gríðarlega mikla þýðingu sigurinn hafði fyrir þær. Eflaust hafa einhverjir verið byrjaðir að afskrifa nýliðana eftir fimm töp í röð, jafnvel þó að þau hafi flest verið mjög naum, en með því að halda markinu hreinu tvo leiki í röð og ná í fjögur stig gegn tveimur liðum sem hafa verið heit í sumar, hefur Tindastóll sýnt að liðið á svo sannarlega fullt erindi í efstu deild. Sauðkrækingar eru vissulega enn í botnsætinu en nú aðeins einu stigi frá næsta örugga sæti og hálft Íslandsmótið eftir. Liðið er greinilega tilbúið að leggja allt í sölurnar fyrir tilverurétti sínum í deildinni og með hágæða lykilmenn eins og Amber og Murielle Tiernan á sitt hvorum enda vallarins er nóg krydd til staðar til að Tindastóll geti mögulega haldið sér uppi. Stjörnukonur geta svekkt sig á slakri byrjun en þó aðallega því að hafa farið svona illa með öll færin sín. Betsy Hassett, Katrín Ásbjörnsdóttir og Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir voru alltaf að skapa eitthvað fram á við en náðu ekki að finna leið framhjá Amber. Eftir þrjá sigra í röð, síðast gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks, varð Stjarnan því að játa sig sigraða. Kristján Guðmundsson þjálfari reyndi að hrista upp í hlutunum með þrefaldri skiptingu í seinni hálfleik, en þó að heimakonur sköpuðu áfram mjög góð færi þá dugði það bara ekki til. Af hverju vann Tindastóll? María Dögg skoraði rétt eins og í hinum sigurleiknum hjá Tindastóli í sumar og markið virtist gefa liðsfélögum hennar mikla trú. Liðið barðist vel fyrir sigrinum en Stjarnan náði þó að skapa sér nóg af færum til að skora framhjá flestum markvörðum í deildinni. Hverjar stóðu upp úr? Það væri mjög einfalt að benda á Amber Michel og þess vegna ætla ég að gera það. Hún var stórkostleg í kvöld. Stærri og þyngri markvörður hefði ekki getað verið svona fljótur að spretta sífellt fram til að loka á Betsy og stöllur hennar í úrvalsfærum. Þegar Stjarnan reyndi svo skot utan teigs þá sá Amber líka við þeim, stundum með miklum tilþrifum. Þó að það megi gagnrýna Betsy fyrir að skora ekki í leiknum þá verður að hrósa henni fyrir það hve aðgangshörð og hættuleg hún var nánast allan leikinn, í þessum síðasta leik áður en hún heldur á Ólympíuleikana til að spila fyrir Nýja-Sjáland. Hvað gekk illa? Stjörnukonur fóru einfaldlega of illa með færin sín í leiknum. Tindastólskonur hefðu getað nýtt aðeins betur tækifærin til að sækja hratt eftir því sem pressa Stjörnunnar jókst. Hvað gerist næst? Stjarnan tekur á móti Val í slag sem gæti skipt miklu máli í toppbaráttunni, á mánudagskvöld. Tindastóll sækir hins vegar Þrótt heim á sunnudaginn og freistar þess að bæta fleiri stigum í sarpinn á útivelli. María: Fólk farið að gráta, svo mikla þýðingu hafði þetta „Fólk var farið að gráta þegar dómarinn flautaði af. Svo mikla þýðingu hafði þetta fyrir okkur,“ sagði María Dögg Jóhannesdóttir sem skoraði markið mikilvæga í kvöld. Hún skoraði einnig í hinum sigurleik Tindastóls í sumar, gegn ÍBV í 2. umferð. „Maður er nú ekki að skora oft en það er alltaf gaman að skora. Við erum búnar að bíða heillengi eftir þessu, töpuðum fimm leikjum í röð, ekkert að ganga og mikið af meiðslum. Við vorum loksins með allt liðið okkar núna og áttum þetta bara skilið. Þetta var „do or die“ og núna erum við að ná hinum liðunum að stigum,“ sagði María. Hún viðurkenndi að leikurinn hefði hins vegar verið erfiður, og mjög erfitt að eiga við Betsy Hassett. „Þær eru náttúrulega með hraða og spila hratt, og við þurftum að „matcha“ það. Við gerðum það kannski ekki í fyrri hálfleik, þó að við höfum skorað. Við breyttum til í seinni hálfleik og mér fannst við „matcha“ orkuna þeirra. Eina færið sem við fengum var samt þegar við skoruðum – síðan vorum við bara í vörn. En við erum góðar í vörn,“ sagði María sem hrósaði einnig Amber markverði: „Amber er bara eins og köttur í markinu. Hún ver allt sem á hana kemur. Það er mjög gott að hafa hana fyrir aftan sig. Mikill talandi og hún stjórnar vörninni bara frá A til Ö.“ Kristján Guðmundsson stýrir Stjörnunni.vísir/vilhelm Kristján: Nóg til að vinna leikinn „Við erum ósátt við byrjunina,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. „Stólarnir komu mjög grimmir inn og við vorum ekki tilbúin í þann pakka – unnum ekki návígin, létum ýta okkur til baka og fengum á okkur mark úr föstu leikatriði, sem þær eru mjög sterkar í. Það tók okkur langan tíma að komast í þann gír að vinna návígi gegn þeim,“ sagði Kristján. „Við gerum alveg nóg til að vinna þennan leik. Það er helst byrjunin þar sem við erum ekki nógu kröftug en svo fengum við færi og einnig tilkall til vítis. En þetta var ótrúlegt á stundum. Ef að Amber varði ekki þá var einhver þarna til að verja á línunni,“ sagði Kristján sem telur að tapið ætti ekki að hafa mikil áhrif á liðið: „Við horfum ekkert á eitt tap. Auðvitað er sérstakt að vinna Íslandsmeistarana og tapa svo fyrir nýliðunum en maður velur sér ekki hvar maður tekur stigin. Það þarf að hafa fyrir þeim.“ Pepsi Max-deild kvenna Stjarnan Tindastóll
Tindastóll vann frækinn 1-0 sigur gegn Stjörnunni í Garðabæ í kvöld og krækti þar með í sín fyrstu stig á útivelli í sumar, í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. María Dögg Jóhannesdóttir kom Tindastóli yfir snemma leiks og liðinu tókst að hanga á forystunni þrátt fyrir að Stjarnan skapaði sér urmul færa. Amber Michel átti stórkostlegan leik í marki gestanna sem allir lögðu þó sitt að mörkum – jafnvel með kröftugum köllum úr stúkunni. Tindastólskonur stigu sigurdans eftir leik og það var augljóst hve gríðarlega mikla þýðingu sigurinn hafði fyrir þær. Eflaust hafa einhverjir verið byrjaðir að afskrifa nýliðana eftir fimm töp í röð, jafnvel þó að þau hafi flest verið mjög naum, en með því að halda markinu hreinu tvo leiki í röð og ná í fjögur stig gegn tveimur liðum sem hafa verið heit í sumar, hefur Tindastóll sýnt að liðið á svo sannarlega fullt erindi í efstu deild. Sauðkrækingar eru vissulega enn í botnsætinu en nú aðeins einu stigi frá næsta örugga sæti og hálft Íslandsmótið eftir. Liðið er greinilega tilbúið að leggja allt í sölurnar fyrir tilverurétti sínum í deildinni og með hágæða lykilmenn eins og Amber og Murielle Tiernan á sitt hvorum enda vallarins er nóg krydd til staðar til að Tindastóll geti mögulega haldið sér uppi. Stjörnukonur geta svekkt sig á slakri byrjun en þó aðallega því að hafa farið svona illa með öll færin sín. Betsy Hassett, Katrín Ásbjörnsdóttir og Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir voru alltaf að skapa eitthvað fram á við en náðu ekki að finna leið framhjá Amber. Eftir þrjá sigra í röð, síðast gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks, varð Stjarnan því að játa sig sigraða. Kristján Guðmundsson þjálfari reyndi að hrista upp í hlutunum með þrefaldri skiptingu í seinni hálfleik, en þó að heimakonur sköpuðu áfram mjög góð færi þá dugði það bara ekki til. Af hverju vann Tindastóll? María Dögg skoraði rétt eins og í hinum sigurleiknum hjá Tindastóli í sumar og markið virtist gefa liðsfélögum hennar mikla trú. Liðið barðist vel fyrir sigrinum en Stjarnan náði þó að skapa sér nóg af færum til að skora framhjá flestum markvörðum í deildinni. Hverjar stóðu upp úr? Það væri mjög einfalt að benda á Amber Michel og þess vegna ætla ég að gera það. Hún var stórkostleg í kvöld. Stærri og þyngri markvörður hefði ekki getað verið svona fljótur að spretta sífellt fram til að loka á Betsy og stöllur hennar í úrvalsfærum. Þegar Stjarnan reyndi svo skot utan teigs þá sá Amber líka við þeim, stundum með miklum tilþrifum. Þó að það megi gagnrýna Betsy fyrir að skora ekki í leiknum þá verður að hrósa henni fyrir það hve aðgangshörð og hættuleg hún var nánast allan leikinn, í þessum síðasta leik áður en hún heldur á Ólympíuleikana til að spila fyrir Nýja-Sjáland. Hvað gekk illa? Stjörnukonur fóru einfaldlega of illa með færin sín í leiknum. Tindastólskonur hefðu getað nýtt aðeins betur tækifærin til að sækja hratt eftir því sem pressa Stjörnunnar jókst. Hvað gerist næst? Stjarnan tekur á móti Val í slag sem gæti skipt miklu máli í toppbaráttunni, á mánudagskvöld. Tindastóll sækir hins vegar Þrótt heim á sunnudaginn og freistar þess að bæta fleiri stigum í sarpinn á útivelli. María: Fólk farið að gráta, svo mikla þýðingu hafði þetta „Fólk var farið að gráta þegar dómarinn flautaði af. Svo mikla þýðingu hafði þetta fyrir okkur,“ sagði María Dögg Jóhannesdóttir sem skoraði markið mikilvæga í kvöld. Hún skoraði einnig í hinum sigurleik Tindastóls í sumar, gegn ÍBV í 2. umferð. „Maður er nú ekki að skora oft en það er alltaf gaman að skora. Við erum búnar að bíða heillengi eftir þessu, töpuðum fimm leikjum í röð, ekkert að ganga og mikið af meiðslum. Við vorum loksins með allt liðið okkar núna og áttum þetta bara skilið. Þetta var „do or die“ og núna erum við að ná hinum liðunum að stigum,“ sagði María. Hún viðurkenndi að leikurinn hefði hins vegar verið erfiður, og mjög erfitt að eiga við Betsy Hassett. „Þær eru náttúrulega með hraða og spila hratt, og við þurftum að „matcha“ það. Við gerðum það kannski ekki í fyrri hálfleik, þó að við höfum skorað. Við breyttum til í seinni hálfleik og mér fannst við „matcha“ orkuna þeirra. Eina færið sem við fengum var samt þegar við skoruðum – síðan vorum við bara í vörn. En við erum góðar í vörn,“ sagði María sem hrósaði einnig Amber markverði: „Amber er bara eins og köttur í markinu. Hún ver allt sem á hana kemur. Það er mjög gott að hafa hana fyrir aftan sig. Mikill talandi og hún stjórnar vörninni bara frá A til Ö.“ Kristján Guðmundsson stýrir Stjörnunni.vísir/vilhelm Kristján: Nóg til að vinna leikinn „Við erum ósátt við byrjunina,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. „Stólarnir komu mjög grimmir inn og við vorum ekki tilbúin í þann pakka – unnum ekki návígin, létum ýta okkur til baka og fengum á okkur mark úr föstu leikatriði, sem þær eru mjög sterkar í. Það tók okkur langan tíma að komast í þann gír að vinna návígi gegn þeim,“ sagði Kristján. „Við gerum alveg nóg til að vinna þennan leik. Það er helst byrjunin þar sem við erum ekki nógu kröftug en svo fengum við færi og einnig tilkall til vítis. En þetta var ótrúlegt á stundum. Ef að Amber varði ekki þá var einhver þarna til að verja á línunni,“ sagði Kristján sem telur að tapið ætti ekki að hafa mikil áhrif á liðið: „Við horfum ekkert á eitt tap. Auðvitað er sérstakt að vinna Íslandsmeistarana og tapa svo fyrir nýliðunum en maður velur sér ekki hvar maður tekur stigin. Það þarf að hafa fyrir þeim.“
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti