Jelena Schally framleiðandi lenti í því í desember að hakkarar tóku yfir Instagram-reikning hennar. Þar með fóru tíu ár af ljósmyndum úr lífi hennar í vaskinn - og hún hefur hvorki séð tangur né tetur af þeim síðan þá.
Jelena segir í samtali við Vísi að hún hafi þó lent í þeirri einkennilegu atburðarás að komast í nokkuð náin samskipti við þann sem hakkaði aðgang hennar. Hann fór á þeim tímapunkti mannavillt og ætlaði að hakka annan, en hakkaði hana. Þegar hann hafði síðan gert út af við reikning hennar var það óafturkræfur skaði.
„Hann baðst í rauninni bara afsökunar af því að hann gerði þetta á röngum forsendum. Þá sendi hann mér skilaboð, í febrúar, og ætlaði að reyna að bæta mér þetta upp. Ég sagði að þú gætir ekkert bætt upp tíu glötuð ár af myndum og öllu lífi mínu. Síðan kíki ég á símann minn síðar um daginn og hafði þá fengið þúsund nýja fylgjendur. Það var hans leið til að segja fyrirgefðu,“ segir Jelena, sem bætir við að óþarft sé að taka það fram að sú afsökunarbeiðni var ekki fullnægjandi.

Jelena hafði samband við sinn hakkara í tengslum við þau mál sem nú er sagt frá í fjölmiðlum og sagðist hann þekkja til hver þar væri að verki - fært fólk úr iðrum internetsins. Enn liggur ekki fyrir hvort tilraunir áhrifavaldanna til að endurheimta reikninga sína beri árangur, eins og þær gerðu sannarlega ekki í tilfelli Jelenu.
Á skjáskotinu hér að ofan, sem Jelena hafði samband við Vísi til að koma á framfæri, má sjá hvaða aðferðum hakkarar beita til að klekkja á fólki.