Lífið

Fékk ofsa­kvíða­kast á fimm stjörnu hóteli og á­kvað að breyta til

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Eva Lúna Baldursdóttir er óhrædd við að stíga út fyrir kassann sem samfélagið vill að hún sé í.
Eva Lúna Baldursdóttir er óhrædd við að stíga út fyrir kassann sem samfélagið vill að hún sé í. vísir

Eva Lúna Baldursdóttir segir að fólk eigi að vera óhrætt við að enduruppgötva sjálft sig. Hún hefur á síðustu misserum orðið mun andlegri en áður, hefur fundið mýktina í sjálfri sér og eltir nú meðal annars drauma sína um að verða tónlistarkona, 38 ára gömul.

Eva er lög­fræðingur að mennt og jóga­kennari. Hún hefur lengi verið virk í Sam­fylkingunni en pólitíkin á ekki hug hennar eins og er.

Hún sinnir enn verk­efnum sem lög­fræðingur en and­leg mál­efni og ekki síst list­ræn eiga nú einnig hug hennar.

Eva Lúna ræddi þessa breytingu á sér í Harma­gedd­on síðasta föstu­dag.

Gat ekki farið út af hótelherberginu

Spurð hvort það hafi verið ein­hver einn at­burður sem leiddi til þess að hún fór að leita meira inn á við segir hún þá hafa verið marga. Einn standi þó upp úr:

„Ég man alveg eftir því, ég var á ein­hverju fimm stjörnu hóteli í Amsterdam og var að fara að vinna á vinnu­ráð­stefnu. Og ég var bara í ein­hverju svona ofsa­kvíða­kasti. Gat ekki farið út og eitt­hvað svona sem ég hef aldrei lent í áður,“ segir Eva. „Það er bara eitt­hvað sem gerist þá, þá um­turnast ég.“

Hún hafi átt að halda stóra kynningu á sér­fræðinga­ráð­stefnunni og að lokum komist í gegn um það með herkjum.

Eftir þetta hafi hún rambað á bók um and­leg mál­efni sem hafi verið vakning fyrir hana.

„Þetta and­lega ferða­lag sem við erum að tala um… Maður er oft bara hvar er ég stödd og hvað er ég að gera? En þetta snýst um að tengjast inn á við,“ segir hún. „Fara þangað og treysta því alveg óháð því hvort sam­fé­lagið sé að gera kröfu um að þú sért í ein­hverjum kassa. Þessi kassi er enginn sann­leikur.“

Hefur prófað sveppi og aya­huas­ca

Spurð hvort hún hafi prófað of­skynjunar­lyf eins og margir gera á sinni and­legu veg­ferð segist hún hafa gert það.

„Ég hef tekið aya­huas­ca og ég hef farið í svona sveppa­ferða­lag.“

Breytti það við­horfi þínu til lífsins?

„Ekki mikið. Ég var náttúru­lega búin að vera á Ind­landi með ein­hverjum gúrúum og upp­lifað ein­hverja svona reynslu í gegn um hug­leiðslu. Þannig að fyrir mér var þetta ekkert svona extra,“ segir hún.

Eva tekur þó fram að slík of­skynjunar­lyf geti hjálpað fólki að sjá eitt­hvað í sinni sjálfs­skoðun ef það notar þau rétt og fer inn í þá reynslu með á­setning um það.

Hefur logið og haldið framhjá

At­riði sem skipta meira máli fyrir hana nú en áður eru til dæmis að elta hjartað og vera góð manneskja.

„Það skiptir bara rosa­lega miklu máli. Þá líður þér betur. Ég hef alveg prófað hitt,“ segir Eva.

„Að vera með allt í smá ó­reiðu hér og þar. Bara já hér er ég að setja smá hvítar lygar, hér eru bara hreinar lygar, hér var ég ein­hvern tíma að halda fram hjá. Bara allt þetta.“

Hún hefur nú gefið út sitt fyrsta lag og segir von á plötu í ná­kominni fram­tíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×