Setningarathöfn leikanna er í Tókýó á morgun og fyrsti keppnisdagur Más er á föstudaginn þegar hann stingur sér til 50 metra skriðsunds.
Már heldur áfram að senda frá sér skemmtileg innslög frá Tókýó á samfélagsmiðlum og greindi frá því að í morgun, þegar hann hugðist loksins sofa út eftir að hafa þurft að vakna snemma síðustu morgna til að æfa, hefði hann vaknað upp með andfælum eldsnemma. Ástæðan? Jú, Már var tekinn í lyfjapróf.
„Þar sem ég lá í rúmi mínu, djúpt í værum svefni, hrökk ég skyndilega upp þegar barið var harkalega á dyrnar að íbúðinni minni. Ég heyri rödd segja: „Hello, this is doping testing. Mister Már Gunnarsson.“ Mér leið eins og veröldin hefði hrunið. Ég hugsaði „Nei, ekki í dag. Ekki í dag!“
Á leikunum eru keppendur nefnilega teknir í lyfjapróf á keppnisdegi en einnig á degi utan keppni sem valinn er af handahófi, án þess að keppendur séu varaðir við.
Eftir þessa óvenjulegu byrjun á deginum fékk Már hins vegar betri fréttir. Hann sagði frá því að allir keppendur á Ólympíumóti fatlaðra fengju gefins Samsung síma og heyrnatól, og að þjálfari sinn Steindór Gunnarsson væri mættur til japönsku höfuðborgarinnar.