Sport

„Þarf að hreinsa meira til en að láta Guðna einan bera þennan kross“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sævar Pétursson er framkvæmdastjóri KA og á sæti í stjórn ÍTF.
Sævar Pétursson er framkvæmdastjóri KA og á sæti í stjórn ÍTF.

Óánægja er innan fótboltahreyfingarinnar á Íslandi með niðurstöðu maraþonfundar KSÍ um helgina. Að mati ÍTF, hagsmunasamtaka félaganna í efstu tveimur deildum karla og kvenna, þarf að gera breytingar á stjórn KSÍ.

Hart hefur verið sótt að KSÍ undanfarna daga eftir að ung kona steig fram í viðtali við RÚV og greindi frá kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir af hendi landsliðsmanns. Hann viðurkenndi brot sitt og greiddi henni miskabætur. Hún var hins vegar ósátt við að Guðni Bergsson hefði greint frá því í viðtali við Kastljós að engin kynferðisofbeldismál hefðu komið á borð sambandsins með formlegum hætti. Guðni dró seinna í land og sagði að sig hefði minnt að um ofbeldismál hefði verið að ræða.

Guðni sagði af sér sem formaður KSÍ í gær en stjórn sambandsins ákvað að sitja áfram. Gísli Gíslason og Borghildur Sigurðardóttir, varaformenn KSÍ, gegna störfum formanns á meðan. Í samtali við Bítið á Bylgjunni sagði Borghildur að ekki hafi verið möguleiki á því að öll stjórnin myndi hætta. Þá yrði sambandið óstarfhæft.

Stjórn ÍTF fundaði í gær og yfirlýsingar er að vænta frá samtökunum í hádeginu. Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, situr í stjórn ÍTF og segir að þar á bæ ríki óánægja með hvernig KSÍ hafi tekið á málunum.

„Í stórum dráttum finnst fólki ekki nógu langt gengið og er ósátt við viðbrögðin sem komu frá KSÍ um helgina. Fólki finnst að meira þurfi að gera. Sú forysta sem er í dag er rúin trausti og það þarf að taka meira til að hægt að sé að halda áfram og unnið aftur traust hjá hreyfingunni og samfélaginu. Það þarf að hreinsa meira til en að láta Guðna einan bera þennan kross,“ sagði Sævar við Vísi í morgun.

Guðni Bergsson er hættur sem formaður KSÍ eftir fjögurra ára starf.vísir/daníel

Honum finnst afsögn lykta af því að Guðni hafi verið gerður að hálfgerðum blóraböggli í málinu. Fleiri þurfi að axla ábyrgð.

Fleiri hafa komið að þessu máli og höndlað það illa

„Það er mín persónulega skoðun að Guðni sé að axla ábyrgð sem mun fleiri þurfa að gera. Mun fleiri koma að þessu máli og hafa höndlað það illa. Það þarf að skipta út meiri forystu til að það verði sátt um okkar störf. Þarna skipta nöfn litlu máli. Við þurfum að fá aðila sem byrja með hreint borð og geta komið fram af auðmýkt fyrir hönd hreyfingarinnar og höndlað þessi mál því það hefur svo sannarlega ekki verið gert,“ sagði Sævar.

Klara Bjartmarz situr enn sem framkvæmdastjóri KSÍ en hún hefur unnið lengi fyrir sambandið.

En er það krafa ÍTF að Klara víki sem framkvæmdastjóri?

„Án þess að fara út í smáatriði hver krafan er, því yfirlýsingar frá ÍTF er að vænta og hún talar fyrir sig, er það ekkert launungarmál að langstærstur hluti félaga ÍTF og jafnvel í neðri deildunum er ósátt við þá niðurstöðu sem kom frá KSÍ í gær,“ sagði Sævar.

Klara Bjartmarz hefur fengið sinn skerf af gagnrýni undanfarna daga.vísir/egill

Að hans sögn er ÍTF og fótboltahreyfingin í landinu samhljóða í áliti sínu á stöðunni.

„Þú verður kannski aldrei með einróma en það hefur sjaldan verið jafn mikil samstaða. Sjaldan hefur komið upp mál þar sem jafn margir eru sammála,“ sagði Sævar.

Krafa að boða til aukaþings

Rætt var um að boða til aukaþings KSÍ þar sem ný stjórn yrði kosin en engin formleg tillaga var lögð fram. Stjórn KSÍ hyggst sitja fram að næsta ársþingi sem fer fram í febrúar á næsta ári. Að sögn Sævars vilja aðildarfélög KSÍ ekki bíða svo lengi og boða til aukaþings.

„Ég held að það verði krafa aðildarfélaganna að það verði boðað til aukaþings. Mér heyrist að það sé almennur vilji hjá félögunum að stjórnarfólk endurnýi umboð sitt til að vinna til baka það traust sem þarf til að stýra svona fjöldahreyfingu eins og KSÍ. Þú getur ekki verið í fararbroddi fyrir hreyfinguna þegar þú ert ekki með fullt traust og umboð hennar til að taka á þessum málum,“ sagði Sævar.

Þarf að rétta upp hönd og viðurkenna ítrekuð mistök

Hann segir að KSÍ þurfi að byrja á núllpunkti og viðurkenna mistök sín til að hægt verði að endurheimta traust, bæði fótboltahreyfingarinnar og almennings.

„KSÍ þarf að byrja upp á nýtt. Það þarf breyta þeirri menningu sem hefur verið viðloðandi þarna. Það er kannski ekki auðvelt að segja einn, tveir og þrír hvað það er nákvæmlega en fyrir það fyrsta þarf fólk að rétta upp hönd og viðurkenna mistökin sem voru ítrekað gerð og læra af þeim. Þú þarft að fara fram á við með betrumbótum en ekki feluleik og undankomu og tækla vandamálið sem er til staðar,“ sagði Sævar. 

„Til að hægt sé að ráðast í endurbætur þarf sú stjórn og forysta sem fær það verk að vera með traust hreyfingarinnar og almennings. Það er mitt mat að sú forysta sem er núna sé ekki með það traust. Ég hef ekkert út á einstaklingana að setja en það er bara búið að vinna hlutina það illa að þetta traust er ekki til staðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×