Makamál

Hvernig á­hrif hafa stefnu­móta­for­rit á þig?

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Finnst þér stefnumótaforrit hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á ástarlífið þitt eða sjálfsmyndina? 
Finnst þér stefnumótaforrit hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á ástarlífið þitt eða sjálfsmyndina?  Getty

Þú fórst út á lífið, lítinn bar með sex borðum og litlu dansgólfi. Svið mögulegra ástarævintýra kvöldsins voru þessir þrjátíu- fjörutíu fermetrar. Svo var alltaf hægt að fara á næsta bar, í nýtt mengi. 

Það voru notaðar misvísindalegar formúlur til þess að finna út heppilegasta staðinn til þess að hitta einhvern spennandi, einhvern sem þú hafðir jafnvel augastað á áður.

Ef það gekk ekki þá helgina, var alltaf næsta helgi. Næsta djamm. 

Vikan leið og þú gleymdir ekki augnsambandinu sem þú fékkst frá þessum sem þú hefðir átt að tala við, en þorðir ekki. 

Hvað ef?

Vikan fór í dagdrauma um þennan dularfulla einstakling. Spennandi dagdrauma. Spennandi óvissa og mikil eftirvænting eftir því að fara aftur út og mögulega rekast á manneskjuna aftur. Eða einhvern annan. 

Breyttur heimur

Það eru ekki nema tíu til fimmtán ár síðan að þetta var leikvöllur einhleypra einstaklinga, eins fjarstæðukennt og það kann að hljóma í dag. 

Ef þú ert einhleypur einstaklingur í dag eru meiri möguleikar á því að einhvers konar svæp komi á undan dularfulla augnsambandinu.

Fyrstu kynni eru yfirleitt í gegnum skjáinn. 

Leikvöllurinn er ekki fjörutíu fermetrar lengur heldur getur þú stjórnað radíusnum heima í stofu. Mengið getur verið allur heimurinn, ef þú bara vilt. 

Þú getur farið yfir gagnagrunninn á meðan þú burstar tennurnar eða gengur frá þvottinum. 

Svæp, svæp, svæp og skella í aðra vél. 

Svæp, svæp, svæp og MATCH!

Samtal hefst og samtali líkur.

 Næsti....

Þá er þvotturinn brotinn saman og svæp kvöldsins klárað yfir miðlungs góðum þætti. 

Morguninn eftir hittir þú vin í kaffi. 

Það er engin á lausu! Engin sem ég hef áhuga á. Eini sem ég hef áhuga á matchaði mig ekki á móti. 

Stundum gengur allt upp, stundum ekkert. Eins og gengur og gerist. 

En ætli fólk geti mögulega verið að fá fleiri hafnanir á kostnað spennu og eftirvæntingu með tilkomu stefnumótaappa?

Gæti verið að við séum að missa af þessu eina spennandi augnsambandi, spennunni og eftirvæntingunni vegna þess að við erum ekki að horfa í kringum okkur og leita, heldur störum stjörf á skjáinn?

Eða er þetta kannski allt til hins betra? Tímasparnaður, meira úrval, fleiri möguleikar?

Spurningu vikunnar er að þessu sinni beint til allra þeirra sem hafa einhverja reynslu af stefnumótaforritum og er fólk beðið um að íhuga það hvernig áhrif notkunin hefur haft á sjálfsmyndina, líðan og já, auðvitað leitina sjálfa. 

Makamál hafa síðustu tvö ár spurt lesendur Vísis vikulega um þeirra skoðanir og viðhorf varðandi málefni tengd ástinni, samböndum, tilfinningum og kynlífi.

Fyrir áhugasama er hægt að nálgast allar fyrri Spurningar vikunnar og niðurstöður hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×