Sport

Sannkallað öskubuskuævintýri: Frá 336. sæti heimslistans í úrslit risamóts

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emma Raducanu trúði varla sínum eigin augum þegar hún komst í úrslit Opna bandaríska meistaramótsins í tennis.
Emma Raducanu trúði varla sínum eigin augum þegar hún komst í úrslit Opna bandaríska meistaramótsins í tennis. getty/TPN

Öskubuskuævintýri hinnar átján ára Emmu Raducanu á opna bandaríska meistaramótinu í tennis heldur áfram en í nótt tryggði hún sér sæti í úrslitum mótsins með sigri á Mariu Sakkari.

Með sigrinum skráði Raducanu sig í sögubækurnar en hún er sú fyrsta sem kemst í úrslit á risamóti eftir hafa tryggt sér þátttökurétt í gegnum úrtökumót.

Raducanu er einnig fyrsta breska konan sem kemst í úrslit risamóts í 44 ár, eða síðan Virgina Wade komst í úrslit á Wimbledon 1977. Wade var í stúkunni í nótt og fylgdist með Raducanu vinna Sakkari.

Raducanu er jafnframt yngsti keppandinn sem kemst í úrslit risamóts í sautján ár, eða síðan Maria Sharapova vann Wimbledon 2004.

Opna bandaríska er aðeins annað risamót Raducanus á ferlinum. Fyrir það fyrsta, Wimbledon fyrr á þessu ári, var hún í 336. sæti á heimslistanum.

Raducanu hafði mikla yfirburði gegn Sakkari í leiknum í nótt og vann hann í tveimur settum, 6-1 og 6-4.

Í úrslitaleiknum mætir Raducanu Leylah Fernandez frá Kanada. Hún er aðeins nítján ára, ári eldri en Raducanu. Fernandez sigraði Arynu Sabalenka frá Hvíta-Rússlandi í undanúrslitunum, 7-6, (7-3), 4-6 og 6-4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×