Atvinnuleysi var 7,4% í júní, 9,1% í maí, 10,4% í apríl og 11,0% í mars 2021. Atvinnulausir voru alls 11.499 í lok ágúst, 6.158 karlar og 5.341 konur og fækkaði atvinnulausum körlum um 404 frá júlílokum og atvinnulausum konum um 634.
Þetta kemur fram í nýútgefnum tölum Vinnumálastofnunar. Stofnunin spáir því að áfram muni draga úr atvinnuleysi í september og það verði á bilinu 5,1% til 5,4%. Þó megi gera ráð fyrir að 200 til 300 einstaklingar komi aftur inn á atvinnuleysisskrá í september þegar ráðningarstyrk lýkur.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði við fréttastofu á miðvikudag að vinnuátakið Hefjum störf hafi gengið vonum framar. Ríflega sex þúsund manns hafa fengið störf í gegnum átakið og stefnir atvinnuleysi hratt niður á við.

Áfram hæst hlutfall á Suðurnesjum
Af þeim 1.038 atvinnulausu sem fækkaði á atvinnuleysisskrá í ágúst fóru um 500 á ráðningarstyrk. Þá bættust við rúmlega þúsund nýir atvinnuleitendur í ágúst.
Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum eða 9,7% og minnkaði úr 10,9% í júlí. Næst mest var atvinnuleysið 6,1% á höfuðborgarsvæðinu og lækkaði úr 6,7% frá því í júlí.
Alls höfðu 5.083 atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok ágúst og fækkaði um 278 frá júlí. Þeir voru 3.051 í ágústlok 2020, að því er fram kemur í mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar.
12,8 prósent atvinnuleysi hjá erlendum ríkisborgurum
Alls voru 4.492 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok ágúst og fækkaði þeim um 440 frá júlí. Í ágúst 2020 var fjöldi atvinnulausra erlendra ríkisborgara 7.173 og hefur fækkað um 2.681 frá þeim tíma. Mesta hlutfallslega fækkun atvinnulausra frá júlí var meðal atvinnulausra erlendra ríkisborgara.
Þessi fjöldi samsvarar um 12,8% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá var um 39% í ágúst.
Atvinnulausum fækkaði í nær öllum atvinnugreinum í ágúst frá mánuðinum á undan. Meðal stærstu atvinnugreina fækkaði mest í ferðatengdri starfsemi eða á bilinu 11% til 13% og í menningartengdri starfsemi um 12% milli mánaða.