Makamál

Hélt að fyrsti kossinn yrði sá eini: „Svo erum við bara gift“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Fjölmiðlakonan Lilja Katrín kynntist manninum sínum GRE fyrir tæpum áratug. Í viðtalsliðnum Ást er talar hún meðal annars um fyrsta kossinn, allar rómantísku myndirnar og ástina sem hún vildi að allir gætu upplifað. 
Fjölmiðlakonan Lilja Katrín kynntist manninum sínum GRE fyrir tæpum áratug. Í viðtalsliðnum Ást er talar hún meðal annars um fyrsta kossinn, allar rómantísku myndirnar og ástina sem hún vildi að allir gætu upplifað. 

„Ég var svo heppin að langþráður draumur minn rættist og ég fékk að leysa af í útvarpinu á Bylgjunni. Það ævintýri ætlar engan enda að taka og er ég óstjórnlega þakklát fyrir það,“ segir fjölmiðlakonan Lilja Katrín Gunnarsdóttir í viðtali við Makamál.

Aðspurð hvað sé framundan segir Lilja alltaf eitthvað spennandi á döfinni, nóg að gera og að veturinn leggist bara vel í sig. 

Mér finnst allavega betra að vera of kalt en of heitt. Það er eitthvað. Annars erum við hjónin afar framtakssöm og fellur ekki verk úr hendi. Hvað verður næst er ómögulegt að segja. Sundlaug ofan á tréhúsið? Nei, ég segi bara svona…

Lilja er gift stjörnuvefaranum Guðmundi Ragnari Einarssyni, oftast kölluðum GRE, og eiga þau samtals fimm börn. Lilja og GRE hafa verið saman í tæp tíu ár og eru þau, að sögn Lilju, búsett á Manhattan Íslands, nánar tiltekið á Kársnesinu í Kópavogi. 

„Við kynntust á hundrað prósent vinnulegum nótum en síðan eru liðin mörg ár. Það eru svo fimm ár síðan við létum pússa okkur saman og það er einn stórkostlegasti dagur lífs míns.“

Lilja Katrín og GRE í góðum gír á brúðkaupsdegi sínum fyrir fimm árum síðan.

Hér fyrir neðan svarar Lilja Katrín spurningum í viðtalsliðnum Ást er:


Uppáhalds rómantíska kvikmyndin mín er:

Mér finnst satt best að segja jaðra við glæp að láta mig velja á milli. Var um tíma að hugsa um að mótmæla þessari spurningu með ærandi þögn, en svo rann af mér reiðin og ég fann mig knúna til að brjóta reglurnar og velja fleiri en eina. 

Ég dýrka, dýrka, dýrka rómantískar myndir því ég elska að gráta gleðitárum yfir fallegri ástarsögu. Tárin byrja að flæða við upphafskynningar í The Notebook og flóðið stoppar ekki fyrr en löngu eftir að hún er búin. Kommon - ástin þeirra er svo tær! 

Myndin Så som i himmelen, sem ég get ekki beðið eftir að sjá á fjölunum í Þjóðleikhúsinu, heldur mér í heljargreipum kjökurs þar til Gabriellas sång hljómar. Þá bresta flóðgáttirnar. 

Línan „Nobody puts baby in the corner“ úr Dirty Dancing, fær mig alltaf til að skæla, tónlistin og kemistrían í Once neglir mig í jörðina og einu skiptin sem ég þagna yfir Beauty and the Beast er þegar að titillagið heyrist er Dýrið og Fríða svífa um hallarsalinn. 

Já, ég grenja nefnilega líka yfir teiknimyndum!

Fyrsti kossinn ykkar:

Lilja Katrín segir öll fiðrildin hafa flogið upp á yfirborðið þegar hún lýsir ástríðufullum og stjórnlausum fyrsta kossi hennar og eiginmanns hennar. 

Úff, hann var stjórnlaus. Öll fiðrildin í maganum flugu upp á yfirborðið á sama tíma og loksins, loksins kyssti hann mig! Auðvitað blandaðist spenna og hrifning við dass af óöryggi, þar sem ég taldi mér trú um að þetta yrði minn fyrsti og eini koss með þessum ótrúlega manni. Svo erum við bara gift. 

Eigum fimm börn samanlagt, tvo hunda og haug af fiskum. Hús með girðinu og hybrid bíl. Þetta vatt allsvakalega upp á sig…

Uppáhalds brake-up power ballaðan mín er:

Það kemur bara ein til greina. Never Ever með All Saints. Ákveðnir eltihrellistaktar og volæði sem einkenna það ömurlega lag. Samt það besta sem þetta band gat gert. Ekki við miklu að búast af hljómsveit sem var eingöngu sett saman til höfuðs Spice Girls.

Lagið „okkar“ er:

Öll lög. Ást okkar er svo sterk að hún yfirstígur alla texta og melódíur.

Mér finnst rómantískt stefnumót vera:

Nauðsynlegt með reglulegu millibili svo ég missi ekki geðheilsuna.

Lilja segir þau hjónin fara nokkuð reglulega á stefnumót en megi þó alveg vera dugleri við þá iðju. „Ég hef trú á því að við girðum okkur í brók á næstu misserum þar sem við eigum engin börn í leikskóla lengur. Maður hefur nú skálað við minna tilefni!“

Uppáhaldsmaturinn minn:

Fyrsti rétturinn sem eiginmaðurinn eldaði handa mér. Kjúklingur, granatepli, tahini sósa, kóríander, kóríander, kóríander. Hann þekkir sína konu.

Fyrsta gjöfin sem ég gaf manninum mínum:

Eitthvað stórkostlega hallærislegt og heimatilbúið því ég var svo blönk. En hér er hann enn.

Fyrsta gjöfin sem maðurinn minn gaf mér:

Reyndar var hún lítið skárri. Prjónabók með Twilight-þema. Elska ekkert sérstaklega mikið að prjóna og er ekkert sérstaklega hrifin af Twilight-myndunum. Okkur hefur farið mikið fram á þessu sviði.

Ég elska að:

Vera elskuð skilyrðislaust og endurgjalda þá ást. Það er ofboðslega góð tilfinning.

Það er greinilega nóg um að vera í eldhúsinu hjá þeim hjónum. 

Maðurinn minn er:

Bestur, fallegastur, fyndnastur, hlýjastur, skrýtnastur, dásamlegastur og heitastur.

Rómantískasti staður á landinu er:

Eldhúsið mitt. Þar er alltaf aksjón!

Ást er: 

Gjörsamlega tjúllað fyrirbæri sem ég vildi svo innilega að allir gætu upplifað, allavega einu sinni á ævinni. Að gefa sig fullkomlega á vald einhvers, treysta hundrað prósent og trúa því staðfastlega að þessi ást vari að eilífu. 

Ástin er líka óttablandin. Hræðsla við að missa ástina sem maður getur ekki lifað án. Og alls konar aðrar tilfinningar. Djöfull er það klikkað og skemmtilegt. Fyrst og fremst er ástin á milli mín og eiginmannsins eitthvað sem ég myndi aldrei vilja vera án.

Fjölskyldan á góðum degi. 

Tengdar fréttir

Pör ástfangnari sem hamast og svitna saman

Í ástarsambandi skiptir miklu máli að eiga gæðastund með makanum. Á sama tíma er einnig mikilvægt að sinna sjálfum sér og gera hluti í sitthvoru lagi. En hvað með líkamsræktina? 

Erum eins og haltur leiðir blindan í eldhúsinu

„Það er aldrei lognmolla á okkar heimili en við erum með fjögur börn svo það er ýmislegt skemmtilegt framundan,“ segir fagurkerinn og athafnakonan Marín Manda Magnúsdóttir í viðtali við Makamál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×