Hrunið á Hlíðarenda er orðið sögulegt. Valsliðið byrjaði taphrinu sína á toppi Pepsi Max deildarinnar en á nú ekki möguleika á Evrópusæti fyrir lokaumferðina.
Valsmenn töpuðu í gær fjórða deildarleik sínum í röð sem er ekki aðeins lengsta taphrina félagsins í tólf liða efstu deild heldur sú lengsta í meira en átján ár.
Valsmenn hafa reyndar tapað síðustu fimm leikjum sínum því á undan tapleiknum á móti KA um helgina þá tapaði liðið fyrir Lengjudeildarliði Vestra í bikarnum. Hinir tapleikirnir í deildinni eru á móti Víkingi, Stjörnunni og Breiðabliki.
Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2003 sem Valsliðið tapar fjórum deildarleikjum í röð á einu tímabili.
Sumarið 2003 þá féll Valur úr deildinni um haustið en liðið hefur verið í úrvalsdeildinni síðan Hlíðarendapiltar komust aftur upp í deildina 2005.
Það er ekki nóg með það þá féllu Valsmenn einnig úr deildinni 2001 þegar þeir töpuðu líka fjórum deildarleikjum í röð. Valsmenn hafa því fallið úr deildinni í tvö síðustu skipti þar sem hafa tapað fjórum deildarleikjum í röð.
Valsliðið fellur ekki í ár en liðið var í efsta sæti deildarinnar þegar taphrinan hófst 22. ágúst síðastliðinn. Nú eru Valsmenn í fimmta sæti, níu stigum á eftir toppliði Víkings.
- Flest töp Vals í röð á einu tímabili í tólf liða efstu deild:
- 4 - 22. ágúst 2021 - enn í gangi
- 3 - 20. maí til 15. júní 2020
- 3 - 25. júlí til 20. ágúst 2015
- 3 - 26. júní til 27. júlí 2014
- 3 - 11. ágúst til 31. ágúst 2014
- 3 - 15. maí til 31. maí 2012
- 3 - 16. september til 25. september 2010
- -
- Flest töp Vals í röð á einu tímabili í efstu deild á þessari öld:
- 4 - 22. ágúst 2021 - enn í gangi
- 4 - 29. maí til 25. júní 2003
- 4 - 26. júlí til 26. ágúst 2001
- 3 - 20. maí til 15. júní 2020
- 3 - 25. júlí til 20. ágúst 2015
- 3 - 26. júní til 27. júlí 2014
- 3 - 11. ágúst til 31. ágúst 2014
- 3 - 15. maí til 31. maí 2012
- 3 - 16. september til 25. september 2010
- 3 - 15. júlí til 11. ágúst 2003