Íslenski boltinn

Al­sæla í Foss­vogi: „Búin að bíða drullu­lengi eftir þessu“

Vésteinn Örn Pétursson og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Pétur, Davíð og Erling, stuðningsmenn Víkings, ánægðir eftir að titlinum stóra var landað.
Pétur, Davíð og Erling, stuðningsmenn Víkings, ánægðir eftir að titlinum stóra var landað.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í Fossvoginum þegar Víkingur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í fyrsta sinn í 30 ár. Stuðningsmenn líktu sigrinum við alsælu og sögðu erfiða þrjá áratugi að baki.

„Þetta er búið að vera gríðarlega spennuþrungið, ótrúlegur dagur í sögu Víkinga og líka bara hvernig við höfum séð styrkinn og hversu öflugt félagið er. Að lyfta titlinum fyrir framan okkar stórkostlegu stuðningsmenn og hverfið allt. Hverfið er algjörlega, gjörsamlega á bak við félagið,“ sagði Björn Einarsson, formaður Víkings Reykjavíkur, í samtali við fréttastofu eftir að félagið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með 2-0 sigri á Leikni Reykjavík.

„Ég get nú viðurkennt það núna að þetta er búið að vera í kringum síðustu daga, ótrúlega „emotional.“ Ég get sagt það, og ég er það í dag. Við erum að ná skrefi sem við erum búin að stefna að lengi,“ sagði Björn.

Alsæla

Stemningin í kringum formanninn þegar fréttastofa ræddi við hann lýsir andanum eftir sigurinn í Víkinni ágætlega. Allt ætlaði um koll að keyra þegar Víkingur tryggði sér hinn langþráða titil. Og hann var sannarlega langþráður, eins og tilsvör stuðningsmanna félagsins bera vitni um.

Íslandsmeistarar, hvernig er tilfinningin?

„Þetta er bara allt annað, þetta er draumur,“ sagði einn stuðningsmaður í samtali við fréttastofu. Annar sagði erfið þrjátíu ár að baki.

„Við erum bara að horfa á eitthvað rugl gerast hérna í Fossvoginum, búin að bíða drullulengi eftir þessu og þetta er alsæla.“

Tveir yngri stuðningsmenn sem fréttastofa ræddi við, sem ekki voru fæddir þegar Víkingur vann sinn síðasta Íslandsmeistaratitil, sögðu tilfinninguna góða.

„Út af því að við erum ekki búin að vinna síðan, ég er búinn að gleyma, nítjánhundruð níutíu og eitthvað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×