Erlent

NASA horfir lengra út í geim

Forsvarsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) hafa ákveðið að gera breytingar á starfseminni, sem eiga að stjórna áherslum opinberra geimferða næstu áratugina. Markmiðið er að leggja meiri áherslu á lengri geimferðir og þróun tækni sem þarf til þeirra.

Samúel Karl Ólason skrifar
NASA vill nota tunglið sem stökkpalla lengra út í sólkerfið. NASA

Forsvarsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) hafa ákveðið að gera breytingar á starfseminni, sem eiga að stjórna áherslum opinberra geimferða næstu áratugina. Markmiðið er að leggja meiri áherslu á lengri geimferðir og þróun tækni sem þarf til þeirra.

Umfang einkafyrirtækja í geimferðum á sporbaug og til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar ISS hefur aukist verulega á undanförnum árum. Breytingarnar voru kynntar fyrir viku síðan og taka þær mark af þeim þessum breytingum og Artemis-áætluninni.

Þær fela í sér að starfsmenn NASA horfa í auknu mæli til tunglsins og Mars og ryðja brautina lengra út í sólkerfið.

Með það í huga hefur þeim hluta NASA sem heldur utan um mannaðar geimferðir verið skipt upp í tvær nýjar deildir. Í stuttu máli sagt munu starfsmenn annarrar deildarinnar vinna að þróun þeirrar tækni sem nauðsynleg er til lengri geimferða til tunglsins og til Mars. Starfsmenn hinnar munu nota þá tækni.

Auk þess að vera ætlað að skila betri árangri er breytingunum ætlað að einfalda fjármögnunarkerfi NASA til muna. Ríkisstjórn Joes Biden, forseta, lagði breytingarnar til, en samkvæmt frétt Verge eru þær í samræmi við fyrri hugmyndir innan ríkisstjórnar Donalds Trump, fyrrverandi forseta.

Hér má sjá ársgamalt kynningarmyndband NASA um Artemis-áætlunina. Gríska gyðjan Artemis er systir guðsins Apollos. Eins og frægt er var það nafn verkefnisins sem sneri að tunglferðunum sem farnar voru á árum áður.

Innan Artemis-áætlunarinnar vinna starfsmenn NASA og margar annarra fyrirtækja og stofnana að ýmsum verkefnum sem snúa að geimferðum út fyrir sporbraut jarðarinnar. Þar á meðal má nefna SpaceX sem er að þróa sérstaka gerð Starship-geimfarsins til að bera geimfara NASA til tunglsins á næstu árum.

Sjá einnig: Geimfararnir sem stefna á tunglið

Til stóð að lenda geimförum á tunglinu árið 2024 en verulega ólíklegt er að það markmið náist.

Sjá einnig: Ekki hægt að lenda á tunglinu 2024 vegna tafa við þróun geimbúninga

Lockheed Martin vinnur einnig að geimfari sem senda á til tunglsins. Einnig má nefna Gateway-áætlunina sem snýr að því að koma upp nýrri geimstöð á braut um tunglið. Þá geimstöð á að nota sem stökkpall lengra út í sólkerfið.

Hér má sjá myndband NASA um af hverju fara á til tunglsins á nýjan leik.

Samkvæmt Artemis-áætlunni ætlar NASA að skjóta geimförum á loft með nýrri tegund eldflauga sem kallast Space Launch System. Þróun  eldflauganna, sem er að mestu á höndum NASA og Boeing, hefur verið mun dýrari en upprunalega stóð til og dregist verulega en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir fyrsta geimskoti eldflaugarinnar árið 2016.

Gagnrýnendur SLS hafa sagt að eina markmið þróunarvinnunnar sé að skapa störf í kjördæmum tiltekinna þingmanna.

Neðsti hluti SLS-eldflaugarinnar á færanlegum skotpalli í Kennedy Space Center í Flórída.NASA

Geimfararnir munu svo nota Orion-geimfar Lockheed Martin til að ferðast til Gateway-geimstöðvarinnar. Þar eiga þeir svo að fara um borð í Starship SpaceX og nota það til að lenda á tunglinu.

Sjá einnig: NASA leitar hugmynda um tungljeppa

Til stendur að skjóta Artemis-1, ómönnuðu Orion-geimfari á loft í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Artemis-2 á svo að senda geimfara á sporbraut um tunglið og Artemis-3 snýst um að lenda mönnuðu geimfari á tunglinu.

Hér má sjá stutt kynningarmyndband NASA um Artemis-1.

Rannsóknir sýna að finna má ís í gígum á pólum tunglsins og þann ís má bæði nota til að framleiða eldsneyti fyrir geimför og halda við byggð manna á tunglinu.

Með því að skjóta geimförum af stað frá tunglinu í stað yfirborðs jarðarinnar væri hægt að spara mikið eldsneyti og í senn gera geimförum kleift að fljúga hraðar. Sérstaklega stendur til að nota tunglið sem stökkpall til Mars.






×