Sport

„Við erum stolt að því að tilheyra hreyfingu sem ætlar að taka sig á og fordæma allt ofbeldi“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir er nýr formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir er nýr formaður KSÍ. Vísir/hulda Margrét

Vanda Sigurgeirsdóttir, nýr formaður KSÍ, segir að sambandið verði að horfast í augu við þá erfiðu tíma sem nú er gengið í gegnum, og að framundan séu óumflýjanlegar breytingar. 

„Mig langar að byrja á því að þakka fráfarandi stjórn og formanni kærlega fyrir þeirra óeigingjarna starf í þágu knattspyrnuhreyfingarinnar og þar með okkar allra, sagði Vanda í upphafi ræðu sinnar á aukaþingi KSÍ. „Með þeim fer mikil reynsla og við vorum að reikna þetta út og við vorum komin upp í hundruð af árum."

„Það verður sannarlega áskorun að fylla þeirra skörð. Þá vil ég þakka starfsfólki KSÍ, sem starfar öturlega að framgangi knattspyrnunnar jafnvel í gegnum öldusjó eins og þann sem hefur verið undanfarið. Þessir aðilar eiga allt okkar hrós skilið."

Segir samstöðu mikilvæga á erfiðum tímum

Vanda segir að sambandið verði að horfast í augu við þá erfiðu tíma sem knattspyrnuhreyfingin er að ganga í gegnum, og að þá sé mikilvægt að staanda saman.

„Þrátt fyrir allt þetta góða í hreyfingunni þá verðum við að horfast í augu við að við erum að ganga í erfiða tíma og þá er mjög mikilvægt að við stöndum saman. Framundan eru óumflýjanlegar breytingar og ég mun gera mitt allra besta til að leiða hreyfinguna áfram í gegnum þessa umbrotatíma og ég er viss um að saman mun okkur takast það."

Hún bætti við að um leið og að unnið sé að afrekum eigi íþróttahreyfingin að vera örugg og leiðandi í að efla einstaklinginn.

„Íþróttahreyfingin á nefninlega að vera fyrir alla. Hún á að vera örugg og leiðandi í að efla einstaklinginn og undirbúa fyrir lífið. Við erum uppeldishreyfing um leið og við erum að vinna að afrekum."

Vanda endaði ræðu sína á að skora á þá sem hafa efasemdir um hana, að gefa sér séns.

„Ef að þið eruð með einhverjar efasemdir um mig þá skora ég á ykkur að gefa mér séns. Við erum stolt að því að tilheyra hreyfingu sem ætlar að taka sig á og fordæma allt ofbeldi," sagði Vanda að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×