Dusty burstuðu Kórdrengi

Snorri Rafn Hallsson skrifar
eddezenn

Kórdrengir hafa ekki haft erindi sem erfiði það sem af er tímabilsins og engin breyting varð þar á þegar liðið mætti meisturunum í Dusty í gærkvöldi. Kórdrengir eru stigalausir á meðan Dusty hefur unnið allar sínar viðureignir, en þetta er í annað sinn sem Dusty vinnur leik 16-3 á tímabilinu á meðan Kórdrengir hafa aldrei unnið færri lotur í einum leik.

Liðin mættust í Inferno kortinu og hafði Dusty betur í hnífalotunni sem sker úr um hver byrjar í hvaða stöðu. Dusty kaus að byrja í vörn (Counter-Terrorists) og féll það því í hlut Kórdrengja að sækja í fyrri hálfleik. Dusty tryggði sér snemma forskot með því að vinna fyrstu þrjár loturnar. Kórdrengir gerðu þó virkilega vel í því að fella leikmenn Dusty og tókst þeim mjög oft að koma sprengjunni fyrir á sprengjusvæðinu með hröðum og skilvirkum aðferðum. Það sem varð liðinu hins vegar að falli var að þeim tókst allt of sjaldan að verja sprengjuna á meðan klukkan tifaði. Þrátt fyrir að vera oft í yfirtölu og í góðri stöðu tókst Dusty alltaf að hafa betur í endurtökunni og gera út af við loturnar. Þannig féll botninn ítrekað úr sóknum Kórdrengja sem  náðu ekki að nýta tækifærin og fylgja aðgerðum sínum eftir af neinum krafti. Dusty yfirspilaði liðið algjörlega og var stundum eins og Dusty vissi hvað Kórdrengir myndu gera áður en Kórdrengir vissu það sjálfir. Þannig gátu þeir komið í bakið á þeim og tekið þá út áður en nokkuð varð úr neinu.

Staða í hálfleik: Kórdrengir 3 - 12 Dusty

Síðari hálfleikur var heldur stuttur. Dusty vann allar fjórar loturnar með því að fella hvern Kórdrenginn á fætur öðrum með einföldum aðgerðum og góðum skotum.

Lokastaða: Kórdrengir 3 - 16 Dusty

Bæði lið leika næst þriðjudaginn 26. október. Dusty er enn á toppi deildarinnar og tekur á móti Fylki en Kórdrengir sitja með sárt ennið stigalausir á botninum og mætir Vallea í næstu umferð. Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.


Tengdar fréttir

Dusty hafði betur gegn Sögu

Dusty lagði línurnar fyrir aðra umferð Vodafonedeildarinnar í CS:GO þegar liðið vann Sögu Esport 16-10 í stórskemmtilegri viðureign.

Dusty rúllaði Ármanni upp

Stórmeistarar Dusty léku sinn fyrsta leik í Vodafonedeildinni í CS:GO í gærkvöldi. Liðið gerði sér lítið fyrir og vann Ármann 16-3 í afar einhliða leik.

Bein lýsing

Leikirnir