Viðskipti innlent

Ráðinn yfir­leikja­hönnuður Solid Clouds

Atli Ísleifsson skrifar
Stefán Friðriksson hefur síðustu ár starfað sem yfirhönnuður á Angry Birds Match-leiknum.
Stefán Friðriksson hefur síðustu ár starfað sem yfirhönnuður á Angry Birds Match-leiknum. Solid Clouds

Stefán Friðriksson hefur verið ráðinn yfirleikjahönnuður hjá Solid Clouds. Hann hefur síðustu ár starfað sem yfirhönnuður á Angry Birds Match-leiknum.

Í tilkynningu segir að um sér að ræða nýja stöðu en félagið muni á næsta ári gefa út nýjan leik, Frontiers, sem einkum sé hannaður fyrir snjalltæki.

„Stefán hefur stundað nám í framleiðslu og hönnun tölvuleikja fyrir snjalltæki við Aalto University Executive Education í Finnlandi. Hann hefur 16 ára reynslu af hönnun leikja- og tekjukerfa fyrir tölvuleiki. Stefán hefur síðustu átta ár starfað sem leikjahönnuður hjá finnska tölvuleikjafyrirtækinu Rovio sem er eitt stærsta og virtasta fyrirtæki í þessari atvinnugrein í Evrópu. Rovio hefur meðal annars gefið út Angry Birds-leikina en þar er um að ræða eina þekktustu og vinsælustu leikjasyrpu sögunnar.

Síðustu þrjú ár hefur Stefán starfað sem yfirhönnuður (e. Game lead) á Angry Birds Match-leiknum. Áður starfaði hann í átta ár sem leikjahönnuður hjá CCP þar sem hann tók þátt í hönnun og gerð fjöldamargra uppfærslna á EVE Online.

Stefán hefur mikla reynslu af hönnun og markaðssetningu tölvuleikja fyrir snjalltæki en finnsk fyrirtæki hafa náð eindæma árangri á því sviði. Markaður fyrir slíka leiki hefur farið hratt vaxandi síðustu ár og bendir allt til þess að sá vöxtur haldi áfram.

Hlutverk Stefáns hjá Solid Clouds er að stýra teymi sem hannar leikja- og tekjukerfi tölvuleikja fyrirtækisins. Í því felst að hanna leikjakerfi með þeim hætti að spilarar njóti leikja félagsins sem best og að tekjukerfi þeirra séu í samræmi við veltumarkmið Solid Clouds,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×