„Þetta kemur okkur á óvart enda er landsframleiðsla á þessu ári ekki meiri en hún var árið 2019 og því ekki um aukningu hagvaxtar á mann frá undirritun lífskjarasamninga,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar, sem rekur ELKO, Krónuna og N1.
„Það eru bara tvær leiðir til að takast á við þessar hækkanir sem eru umfram framleiðniaukningu; að hækka vöruverð eða fækka starfsfólki.“
Festi horfir fram á hátt í 9 prósenta prósenta aukningu í launakostnaði á næsta ári, þar af fimm prósent vegna hækkana 1. janúar og síðan ríflega 3 prósent vegna hagvaxtaraukans.
Hagvaxtaraukinn einn og sér gæti leitt til þess að launakostnaður Festi, sem er með 2.000 starfsmenn í vinnu, aukist um rúmlega 300 milljónir króna.
Hagvaxtaraukinn, sem tryggir launafólki hlutdeild í ávinningnum þegar landsframleiðsla á hvern íbúa eykst, er nýlunda í íslenskri kjarasamningagerð. Samtök atvinnlífsins vildu með þessu taka skref í átt að norræna vinnumarkaðslíkaninu, þar sem framleiðni hagkerfisins setur launaþróun ákveðinn ramma.
Þannig myndu laun hækka um 3 þúsund krónur af hagvöxtur á mann væri yfir 1 prósenti, þau myndu hækka um 8 þúsund krónur af hagvöxtur á mann væri yfir 2 prósentum og um 13 þúsund krónur ef hagvöxtur á mann væri yfir 3 prósentum.
Nýjasta þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir 4 prósenta hagvexti á þessu ári eftir 6,5 prósenta samdrátt á árinu 2020.
Þrátt fyrir að landsframleiðsla í lok ársins verði minni en hún var í lok árs 2019 verða laun hækkuð í maí á næsta ári, líklega um 13 þúsund krónur, vegna ákvæðis um hagvaxtarauka. Og hagvaxtaraukinn leggst ofan á 24 þúsunda króna hækkun næstu áramót.
Seðlabankastjóri sagði í samtali við Innherja að það væri „óheppilegt“ að hagvaxtaraukinn myndi virkjast á næsta ári að óbreyttu en það væri eitthvað sem Seðlabankinn gæti ekki haft stjórn á. „En við ráðum hins vegar miklu um vaxtastigið og spurningin er hvað við þurfum að gera mikið til að tryggja verðstöðugleika.“
Tólf mánaða verðbólga mælist nú 4,5 prósent en bankinn spáir því að hún muni hækka í 4,7 prósent undir lok þessa árs – mesta verðbólga í næstum áratug – og hún fari ekki undir 3 prósent fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2022.
Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna, er áhyggjufullur yfir þróun launakostnaðar í veitingaþjónustu. Gleðipinnar reka fjölda þekktra veitingastað, svo sem Hamborgarafabrikkuna, Aktu Taktu og Saffran, og eru með um 400 starfsmenn í vinnu.
„Það er eitt af okkar höfuðmarkmiðum að geta skapað þeim gott og öruggt starfsumhverfi,“ segir Jóhannes.
„Við höfum áhyggjur af því að veitingamarkaðurinn sé kominn að mörkum þess að vera sjálfbær til lengri tíma litið. Ef ekkert verður að gert hlýtur þessi þróun að leiða til fækkunar starfsfólks í greininni heilt á litið.“
Magnús Hafliðason, forstjóri Domino's á Íslandi, segir að áætlað sé að taxtahækkanirnar sem taka gildi þann 1. janúar muni að óbreyttu auka launakostnað skyndibitakeðjunnar um lágmark 120 milljónir króna á ársgrundvelli.
Því til viðbótar reiknar fyrirtækið með auknum hækkunum á kostnaði, t.a.m. hvað varðar verð á aðföngum, ekki síst innfluttum vörum sem margar hafa þegar hækkað verulega, að sögn Magnúsar. Og þá á eftir að taka hagvaxtaraukann með í reikninginn.
„Hugmyndin á bak við hagvaxtaraukann er ágæt í sjálfu sér en hann er að koma í kjölfarið á hæstu krónutöluhækkunum síðari ára og ofan í þau fjölmörgu áhrif sem Covid hefur haft á rekstur fyrirtækja.“
Magnús segir óhjákvæmilegt að svo mikill þrýstingur á kostnaðarhliðinni muni hafa áhrif á markaðinn almennt, t.d. í aukinni færslu yfir í stafrænar lausnir en mjög líklega almennt verðlag.
Domino's ákvað nýlega að hækka verð á þriðjudagstilboði sínu um 100 krónur en þetta var fyrsta hækkunin á tilboðinu í rúman áratug þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hefði hækkað um 42 prósent yfir sama tímabil.
Jóhannes hjá Gleðipinnum vísar í greiningarskýrslu sem KPMG vann fyrir Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) en þar kom fram að launakostnaður í greininni hefði verið ríflega 40 prósent árið 2019. Sömu hlutföll voru í kringum 25 prósent í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi.
„Það er almenn skoðun atvinnurekenda í veitingageiranum að það hafi tæpast verið innistæða fyrir hækkunum Lífskjarasamningsins áður en að Covid skall á, enn síður nú þegar fyrirtæki eru hægt og rólega að ná kröftum sínum á ný,“ segir Jóhannes.
„Umræða um launahækkun vegna hagvaxtar til viðbótar við almenna launahækkun er því ekki til þess að vekja sérstaka bjartsýni á meðal veitingamanna. Það má heldur ekki gleyma því að aðföng og hráefni hafa hækkað mikið á undanförnum misserum í ofanálag.“
Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins höfðu möguleika á að segja upp lífskjarasamningunum síðastliðinn september en samningarnir gilda til nóvember á næsta ári.
Hvorugur viðsemjandi ákvað að nýta uppsagnarákvæðið en Ásdís Kristjánsdóttir sagði í hlaðvarpi Þjóðmála að Samtök atvinnulífsins hefðu reynt að eiga samtal við verkalýðshreyfinguna um hagvaxtaraukann.
„Okkur fannst mjög leiðinlegt að heyra að verkalýðshreyfingin væri ekki tilbúin að eiga þetta samtal við okkur en við mátum það sem svo að væri heldur ekki rétt að segja upp kjarasamningum núna og skapa ófrið á vinnumarkaði. Frekar að nýta næstu mánuði til að búa í haginn og ná skynsömu samtali á næsta ári,“ sagði Ásdís.
Þá sagði Ásdís að eftir á að hyggja hefði verið betra að hafa hagvaxtaraukann þannig að hann myndi virkjast ef hagvöxturinn kæmi í kjölfar mikils samdráttar.
„En við verðum að hafa í huga að við vorum í mjög erfiðri stöðu árið 2018 þegar við vorum að semja við verkalýðshreyfinguna vegna þess að kröfurnar voru langt umfram það sem við mátum vera svigrúm atvinnulífsins. Þetta var lendingin en auðvitað tökum við þetta inn í samtalið í næstu kjarasamningum.“
Hagvaxtaraukinn takmörkunum háður
Vikið var að hagvaxtaraukanum í Peningamálum Seðlabanka Íslands árið 2019. Seðlabankinn taldi hagvaxtaraukann vera jákvætt skref í kjarasamningagerð í ljósi þess að framleiðni vinnuafls ákvarði þróun kaupmáttar launa til lengdar.
„Hagvaxtaraukinn er hins vegar takmörkunum háður þar sem ekki er miðað við hefðbundna mælikvarða á framleiðni vinnuafls eins og landsframleiðslu á vinnustund,“ sagði í Peningamálum. Þannig gæti t.d. vinnutímahagræðing skilað framleiðniaukningu sem ekki virkjar launaaukann en aukin atvinnuþátttaka eða hærra hlutfall fólks á vinnualdri, t.d. vegna búferlaflutninga, virkjað aukann án þess að breytingin endurspegli aukna framleiðni.
„Hagvaxtaraukinn virkar auk þess einungis til launahækkunar en ekki til minni launahækkana ef landsframleiðsla á mann myndi til dæmis dragast saman.“
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.