Það er fátt jafn spennandi og sama á tíma jafn stressandi og það að fara á stefnumót í fyrsta skipti. Sérstaklega þegar þú þekkir manneskjuna lítið sem ekkert.
Hvernig verður kvöldið? Um hvað á að tala? Og ekki síst.... Í HVERJU Á ÉG AÐ VERA?
Hvernig týpa sem þú ert þá lenda flestir í því sem fara á stefnumót að velta því fyrir sér hvernig sé best að klæðast.
Hvað er of mikið, hvað er of lítið? Hvað fer mér vel og hvað alls ekki?
Meðvitað eða ómeðvitað er klæðnaður stór partur af því hvernig við tjáum okkur og hvernig týpur við erum, ef svo má að orði komast. Það er því mjög eðlilegt að fólk velti þessum málum fyrir sér og geti farið í marga hringi í fataskápnum áður en dressið er valið fyrir stefnumótið.
Flestir vilja koma vel fyrir við fyrstu kynni, sína sitt besta án þess þó að reyna of mikið.
Makamál fengu vel valda álitsgjafa úr tísku- og listageiranum til að svara spurningunni: Í hverju á að klæðast á stefnumóti?
Flestir lögðu mikla áherslu á snyrtimennsku og hreinlæti en hægt er að sjá ráðleggingar álitsgjafanna hér fyrir neðan.
Hulda Halldóra - Stílisti og búningahönnuður
Ég myndi alltaf ráðleggja fólki að fara ekki endilega overdressed þegar farið er á stefnumót. Frekar að reyna að velja flíkur sem þú veist að klæða þig og endurspegla persónuleikann þinn og stílinn þinn án þess að vera að ofhugsa.
Snyrtimennska og hreinlæti er svo númer eitt, tvö og þrjú. Passa að fötin séu hrein og fín, vera með snyrtilegar neglur og hreint hár.
Góð lykt eða ilmur getur verið mjög heillandi en það er samt gott að hafa það í huga að það er auðveldlega hægt að fara fram úr sér þar líka. Of mikill ilmvatn getur verið truflandi fyrir einhverja.
Hægt er að nálgast Instagram síðu Huldu Halldóru hér.
Stefán Svan – Verslunareigandi
Númer eitt, tvö og þrjú er að vera í hreinum og ókrumpuðum fötum. Einhverjir myndu kannski ætla það að ekki þyrfti að taka það fram en tala ég nú samt af gefinni reynslu.
Á fyrsta stefnumóti er mikilvægt að líða sem best og velja fatnað í samræmi við það, við lítum best út þegar okkur líður vel.
Það ætti að varast það að vera í flóknum fötum sem krefjast lagni við að koma sér í eða úr eða hreinlega viðhalda.
Best er að klæða sig eftir eigin persónuleika en ekki að reyna að sýna á sér einhverja hlið sem ekki á sér stoð í raunveruleikanum.
Muna að klæða sig eftir veðri
Ég mæli ekki með að vera í glænýju dressi sem við vitum ekki alveg hvernig okkur mun líða í og ekki er sniðugt að vera í nýjum skóm því þeir geta farið að særa.
Þægileg nærföt eru svo punkturinn yfir i-ið. Það er stranglega bannað að vera í þveng!
Muna svo að huga vel að aðstæðum og klæða sig eftir veðri, það er ekki smart að vera illa klæddur í byl eða jafnvel í svitakófi á matsölustaðnum.
Hægt er að nálgast Instagram síðu Stefánsbúðar hér.
Svava Johansen – Forstjóri NTC
Fólk ætti bara að klæða sig eins og því líður best í það skiptið, sérstaklega þegar kemur að stefnumótum. Við viljum ekki vera að draga upp einhverja allt aðra mynd af okkur heldur vera besta útgáfan af sjálfum okkur.
Ef að ég sjálf væri að fara á stefnumót með Bjössa mínum, í fyrsta skipti, þá myndi ég elska að blanda smá svölum stíl við hefðbundinn, því þannig líður mér sjálfri best.
Ég myndi mæta í used gallabuxum, brúnum ökkla rúskinnsskóm með kúrekasniði, skyrtu sem er ekki of flegin og svölum jakka.
Lykilatriði að líða vel í fötunum
Þegar ég klæði mig eins og mér líður vel þá er ég í góðu skapi og með húmorinn uppi á borðinu. Þegar velja á fatnað fyrir stefnumót er algjört lykilatriði að mínu mati að líða vel í fötunum.
Hversu skemmtilegur getur maður verið í óþægilegum fötum eða alltof þröngum skóm?
Hægt er að nálgast Instagram síðu Svövu hér og Instagram síðu NTC hér.
Gunni Hilmars - Hönnuður og tónlistarmaður
Fólk ætti að reyna að vera afslappað og vera til fara eins og þeim líður best þegar farið er á stefnumót. Allur rembingur og sýndarmennska er ekki vænleg til árangurs til að heilla deitið þitt.
Mikilvægt að passa upp á hreinlæti
Samt ætti auðvitað að passa upp á að vera smart og snyrtileg/-ur og passa upp á augljós klúður eins og að vera í einhverju rifnu, skítugu eða óhreinum skóm.
Það er alltaf best að vera maður sjálfur enda ætti maður ekki að vera að sýna neitt annað en það á stefnumóti. Það er því miklu betra að vera afslappaður en uppstrílaður og stressaður.
Hinsvegar ef þú ert týpan sem tekur þetta yfirleitt alla leið og líður vel þannig, þá er um að gera að kýla á það. Þegar allt kemur til alls þá er mín ráðlegging sú að vera maður sjálfur. Ef deitið er rétt þá dugar það.
Hægt er að nálgast Instagram síðu Gunna hér.
Sylvía Dögg Halldórsdóttir / Sylvía Lovetank - Búningahönnuður og listamaður
Ég myndi ráðleggja öllum að klæða sig eins og þeim líður best þann daginn, sama hvert sem tilefnið er.
Þó enginn sjái það nema þú þá getur það gert mikið fyrir sálina að klæðast fallegum nærfötum innanfata.
Ég elska til dæmis nýja sokka, þeir geta gert mikið. Ég elska reyndar að fara í fatnað og skó í fyrsta skipti yfir höfuð en það getur bitið mann í rassinn ef það er ekki þægilegt til lengdar.
Skemmtilegt að tjá sig með klæðnaði
Það er nefnilega alltaf best að líða vel í fötunum sínum og á stefnumóti og myndi ég sérstaklega forðast það að fara í flíkur sem eru óþægilegar eða til dæmis of litlar.
Fötin skapa manninn og maðurinn skapar fötin. Fatnaður getur nefnilega sagt heilmikið til um hvaða „mann“ þú hefur að geyma og það getur verið mjög skemmtilegt að tjá sig með klæðnaði.
Ég hvet alla til að vera hugrakkir í klæðavali, farðu í það sem þú elskar, ekki hugsa um hvað öðrum finnst og ekki vera of upptekin/-n af straumum tískunnar.
Það getur verið pínlegt að finna sig í sama kjól eða skyrtu og manneskjan á næsta borði. Ef þér líður vel í flík, sama hvernig hún er, þá berðu það með þér.
Stefnumót er fullkomið tilefni til að láta ljós sitt skína hvað persónuleikasköpun varðar því þar viltu bókstaflega koma til dyranna eins og þú ert klæddur.
Hægt er að nálgast Instagram síðu Sylvíu hér.