Hún er meðlimur í kraftlyftingardeild Stjörnunnar og segir sig og miðaldra vinkonur sínar meðvitaðar um mikilvægi þess að þjálfa „core-ið." Hún ætlar ekki að klára Squid Games, sem hún byrjaði á. „Klukkustund sem ég fæ aldrei aftur."
06.40 Hringir síminn! Ég er alltaf á leiðinni að fá mér vekjaraklukku, vera ekki með símann við rúmið og allt það. En þetta er eitt af mörgu í vegferðinni að fullkomnun, ekkert gerist! Ég er engin morgunmatskona en kaffibolli getur bjargað mannslífi, að minnsta kosti sálartetri. Hendi mér í æfingafötin og hleyp út.
07.00 Mætt í Ásgarð. Það er eitthvað töff við það að vera meðlimur í kraftlyftingardeild Stjörnunnar. Við erum nokkrar miðaldra konur sem lyftum þarna saman enda meðvitaðar um mikilvægi þess að þjálfa ,,core-ið“. Það er auðvitað fáránlegt að vakna fyrir allar aldir til að fara á æfingu en með því hefur maður enga afsökun til að skrópa, klára þetta bara.
07.50 Komin aftur heim, hendi mér í snögga sturtu, athuga hvort unglingarnir séu ekki örugglega vaknaðir og bruna út!
08.30 Stjórnarfundur hjá lífeyrissjóðnum Gildi. Þetta eru yfirleitt þéttir og langir stjórnarfundir. Helsta áskorun lífeyrissjóða í dag er hækkandi lífaldur, sem er vitaskuld jákvætt fyrir samfélagið en við þurfum að laga kerfið að þessum breytingum.
11.45 Borða hádegismat á meðan ég vesenast í tölvupóstum og tek nokkur símtöl vegna Pure North Recycling. Sjálfbærni, hringrásarhagkerfið og innlend endurvinnsla.
Það er erfitt en skemmtilegt að byggja upp nýsköpunarfyrirtæki í umhverfismálum.
13.00 Samráðsfundur SA og ASÍ um lífeyrissjóðsmál. Þar er það helst að samkvæmt Mercer og CFI (alþjóðleg samtök fjárfestingaráðgjafa) er Ísland með besta lífeyriskerfið! Ég held að þessi árangur sé ekki síst að þakka samvinnu launamanna og launagreiðanda í uppbyggingu og þróun kerfisins.
15.30 Lífeyrismálin búin að taka stóran hluta af deginum. Plastast því aðeins og fer yfir nokkur mál vegna bæjarstjórnarfundar á eftir.
17.00 Bæjarstjórnarfundur í Garðabæ. Mér finnst pólitíkin skemmtileg og það eru forréttindi að fá að taka þátt í sveitarstjórnarmálunum í Garðabæ.
Það er mikil nálægð í bæjarpólitíkinni enda snýst hún um okkar nærsamfélag.
Nú stendur yfir fjárhagsáætlunargerð en í gegnum hana áætlum við helstu verkefni næstu ára. Þar þarf að vanda til verka og höfum í huga að ekkert sveitarfélag getur veitt góða þjónustu ef fjárhagsstaðan er ekki í lagi.
19.00 Haustgleði Ilse Jacobsen á Garðatorgi. Miðbærinn í Garðabæ er flottur og þar er að finna fjölbreytta verslun og þjónustu. Ragnheiður, eigandi Ilse, tekur vel á móti okkur!
20.00 Loksins komin heim og skyndilega finnst mér besta hugmynd dagsins að baða hundinn, eitthvað sem ekki hefur gefist tími í undanfarið.
Hundinum Bassa leiðast baðferðir og reynir að fela sig en hann er ömurlegur í feluleik og endar því í sturtunni.
21.00 Eftir langan dag er oft gott að lesa eða horfa á sjónvarpið. Kóresk þáttaröð á Netflix sem eru sú vinsælasta í heiminum í dag. Jahérna, klukkustund sem ég fæ aldrei aftur.
22.30 Ég reyni að fara að minnsta kosti einu sinni í viku mjög snemma að sofa. Það síðasta sem ég hugsa um áður en ég leggst á koddann er að vonandi næ ég að gera eitthvað af viti á morgun en þá er ekki einn fundur á dagskrá hjá mér. En svo er það fjárans ræktin, á ég að nenna að stilla vekjarann á 06.40...
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.