Innherji

Raunhæft að loðnan skili 60 milljörðum að sögn forstjóra Síldarvinnslunnar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Loðnukvóti Síldarvinnslunnar er um 116 þúsund tonn.
Loðnukvóti Síldarvinnslunnar er um 116 þúsund tonn. VÍSIR/VILHELM

Gunnþór Ingvarsson, forstjóri Síldarvinnslunnar, mælir með því að væntingum um verðmætin sem hægt er að ná úr loðnuvertíðinni verði stillt í hóf. Fyrirséð er að verðin sem sáust á síðustu vertíð verði ekki í boði ef mikið verður framleitt.

Þetta kom fram í máli Gunnþórs á uppgjörskynningu fyrirtækisins í dag en þar bauð hann fjárfesta velkomna í „loðnurússíbanareiðina“ sem er að hefjast.

„Ég held að sumir hafi verið fullfljótir að reikna verðmætin,“ sagði Gunnþór. „Það er ekki hægt að margfalda síðustu vertíð. Við erum með takmarkaða manneldismarkaði og verð á mörkuðum eru mjög háð framboði. Það sem er umfram það sem manneldismarkaðir ráða við fer í fiskimjöl og lýsi.“

Íslenskum skipum er heimilt að veiða um 660 þúsund tonn af loðnu en kvóti Síldarvinnslunnar er um 116 þúsund tonn. Að mati Gunnþórs ætti íslenskur sjávarútvegur að geta náð minnst 60 milljörðum króna úr loðnukvótanum.

„Auðvitað er það háð því að veiðar og vinnsla gangi upp. Það eru margir óvissuþættir,“ sagði Gunnþór. Hann benti á að markaðurinn í Austur-Evrópu væri stórt spurningamerki í ljósi þess að þar væru enn birgðir frá síðustu vertíð. 

Þá mun viðskiptabannið á Rússland „bíta fast“ að sögn Gunnþórs en það er einn stærsti markaðurinn fyrir frosna loðnu og mikilvægur hrognamarkaður.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Möguleiki á stærstu loðnuvertíð í tuttugu ár

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á fundi ríkisstjórnarinnar í gær grein fyrir því að hann hefði í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar undirritað reglugerð um veiðar á loðnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×