Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna jólaskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
„Ég er meiri Grinch en margan grunar en ég er leikkona og því leik ég Elf flest jól.“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
„Jól í New York þar sem ég var full eftirvæntingar að sjá dvergasirkussýningu þann 24. desember. Dvergarnir reyndust síðan ekki hafa fengið landvistarleyfi en í staðinn sá ég sirkuslistamann jöggla með ketti, nokkuð sem ég gleymi seint.“
Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Þegar ég fékk köttinn minn hann Rúfus sem fylgir okkur enn.“
Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Mér finnst gaman að fá gjafir og þykir vænt um þær allar.“
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
„Ég held ekki stíft í neinar hefðir. Ég reyni fremur að skapa nýjar með mínu fólki. Í ár ætlum við fjölskyldan til dæmis að reyna að kveikja í IKEA jólageitinni. Ég er alveg til í að rata á sakaskrá fyrir það.“
Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?
„Ef ég nenni með Helga Björns. Ekki vegna þess að mér finnist lagið gott, heldur vegna þess að það var svo gaman að hlusta á það og spila það viðstöðulaust þegar við Soffía vinkona vorum að pakka vörum á ónefndum lager hér í borg ein jólin.“
Hver er þín uppáhalds jólamynd?
„Réttlætisriddararnir með Mads Mikkelsen.“
Hvað borðar þú á aðfangadag?
„Ég er ekki enn búin að ákveða það.“
Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
„Kát börn.“
Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?
„Við erum að æfa í jólasýningu Þjóðleikhússins. Það er alltaf hátíðlegt og gaman að frumsýna á annan í jólum.“
„Ég vona bara að flestir hafi það gott um jólin og eigi notalegar stundir með vinum og fjölskyldu.“