Innherji

Alvotech reiknar með 100 milljarða króna tekjum árið 2025

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Alvotech stefnir á að verða leiðandi fyrirtæki í heiminum í líftæknihliðstæðulyfjum.
Alvotech stefnir á að verða leiðandi fyrirtæki í heiminum í líftæknihliðstæðulyfjum. Alvotech

Áætlanir Alvotech gera ráð fyrir að tekjur fyrirtækisins nemi 800 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 105 milljarða króna, á árinu 2025. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu sem íslenska líftæknifyrirtækið birti í dag samhliða tilkynningu um samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition og skráningu í bandarísku kauphöllina.

Alvotech hefur þegar gert samninga um forsölu lyfja með samstarfssamningum við önnur stór lyfjafyrirtæki sem sjá um sölu og dreifingu framleiðslunnar í yfir 60 löndum. Þar á meðal eru. lyfjarisinn Teva í Bandaríkjunum og Stada í Evrópu sem greiða Alvotech fyrir sérleyfi til markaðssetningar lyfja sem fyrirtækið þróar og framleiðir.

Alls hefur Alvotech þegar selt þessi sérleyfi fyrir jafnvirði hátt í 1,15 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 150 milljarða króna, og eiga um 80 prósent samningsfjárhæðanna eftir að greiðast til félagsins.

Þá kemur fram í útboðslýsingunni að einnig sé stefnt að skráningu hlutabréfa sameinaðs félags á First North-markaðinn á Íslandi.

Heildarvirði sameinaðs fyrirtækis er áætlað um 2,25 milljarðar dala en samkvæmt fjárfestakynningunni var Alvotech verðmetið á 1,8 milljarða dala, jafnvirði um 236 milljarða króna, í viðskiptunum. 

Það er nokkuð lægra verðmat en eigendur skuldabréfa Alvotech miðuðu við þegar þeir nýttu rétt sinn til að breyta skuldabréfunum í hlutafé í júní. Þá var líftæknifyrirtækið verðmetið á 300 milljarða króna. 

Á móti kemur er kveðið á um það í samkomulaginu við SPAC-félagið að núverandi hluthafar Alvotech eigi rétt á árangurstengdum greiðslum nái félagið tilteknum fjárhagslegum markmiðum eftir að það verður skráð á markað. Þannig kemur fram í fjárfestakynningunni að þeir geti fengið úthlutað nýjum hlutum í félaginu upp á samtals liðlega 383 milljónir dala - miðað við að gengi hlutabréfanna í viðskiptunum er 10 dalir að nafnvirði - ef hlutabréfaverð þess mun hækka um meira en 100 prósent innan tiltekins tíma. 

Áætlanir Alvotech, miðað við væntar tekjur upp á 800 milljónir dala og 60 prósenta framlegð, gera ráð fyrir að virði fyrirtækisins árið 2025 geti legið á bilinu 7,2 til 9,6 milljónir dala, eða um og yfir 1.000 milljörðum króna.

Viðskiptin sem tilkynnt var um í dag munu skila Alvotech um 450 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum 60 milljörðum íslenskra króna, í auknu fjármagni sem skiptist í um 250 milljóna dala innspýtingu reiðufjár sem kemur úr sjóðum Oaktree Acquisition og yfir 150 milljónir dala með beinni hlutafjáraukningu frá alþjóðlegum fjárfestum, þar sem verðmat á hvern hlut eru tíu dalir.

Fyrirtæki á snærum Oaktree hafði fjárfest í breytanlegum skuldabréfum Alvotech árið 2018 og í árslok 2020 var skuldabréfaeignin, sem bar 15 prósenta vexti, bókfærð á 40 milljónir dala.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×