Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna jólaskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
Ég fer í allar áttir og hef verið þeir báðir. Ég er þó meiri Elf heldur en Grinch og nýt jólanna, skreyti meira en áður og bý mér til nýjar hefðir, er ekki íhaldssöm varðandi hefðir eða jólin nema að því leyti að ég mun alltaf kaupa furu.
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
Það eru margar notalegar stundir í faðmi þeirra sem nú eru farnir.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Miði á Coldplay tónleika frá bróður mínum sömu jól og ég gaf honum stuttermabol.
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
Baka sörur með vinkonunum, fara á Jómfrúna í desember og rölta um miðbæinn á Þorláksmessu.
Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?
Það snjóar með Sigurði Guðmundssyni og Memfísmafíunni.
Hver er þín uppáhalds jólamynd?
The Holiday.
Hvað borðar þú á aðfangadag?
Oftast hamborgarhrygg en við höfum líka oft borðað eitthvað annað og prófað ýmislegt.
Hvers óskar þú þér í jólagjöf í ár?
Ég væri til í bækur eða upplifun.

Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
Að skreyta jólatréð, röltið í miðbænum á Þorláksmessu og svo á aðfangadag er það messan í sjónvarpinu kl 18.
Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?
Ég verð í þinginu núna um jólin og að vinna í því að búa til nýtt og spennandi ráðuneyti háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarmála. Mér finnst það ótrúlega skemmtilegt verkefni en fyrir utan vinnuna er það bara að njóta hátíðanna með fjölskyldu og vinum.
Eitthvað annað skemmtilegt sem þú vilt koma á framfæri?
„Knúsið fólkið ykkar og gerið það sem gefur ykkur gleði – lífið er einstakt ferðalag!“