Lífið

„Hef aldrei viljað gefast upp þrátt fyrir miklar mót­bárur og stóra veggi“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Þau Íris og Bjössi voru viðmælendur í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása.
Þau Íris og Bjössi voru viðmælendur í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása. Betri helmingurinn

Þegar Íris sá Bjössa fyrst á skemmtistaðnum Gauknum fyrir tuttugu árum síðan vissi hún strax að þarna hefði hún séð manninn sinn. Það tók hana hins vegar sex mánuði að hafa upp á honum aftur og þá veitti Bjössi henni enga athygli. Það hafði einfaldlega ekki hvarflað að honum að hann ætti séns í þessa gullfallegu stúlku.

Björn Stefánsson, betur þekktur sem Bjössi í Mínus er þungarokkari, trommari og leikari. Hann hefur meðal annars slegið í gegn í sýningunni Níu líf í Borgarleikhúsinu. Betri helmingur Bjössa er Íris Dögg Einarsdóttir. Íris er ljósmyndari og hefur getið sér einstaklega gott orð á þeim vettvangi.

Þau Bjössi og Íris voru gestir í 36. þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása sem hóf göngu sína síðasta vor. Umsjónarmaður þáttanna er Ásgrímur Geir Logason. Hann fær til sín þjóðþekkta einstaklinga ásamt þeirra betri helming og ræðir um ástarsambandið, lífið og tilveruna.

Bjössi og Íris eiga tuttugu ára samband að baki og segja þau frá því hvernig leiðir þeirra lágu saman á skemmtistaðnum Gauknum árið 2002.

Hann hélt hann ætti ekki séns en hún var sjúk í hann

Bjössi var nýkominn heim úr sínu fyrsta tónleikaferðalagi með Mínus og segist hafa verið á slæmu tímabili í lífinu og furðar sig á því að stelpa eins og Íris hafi heillast af honum.

„Við erum svo ólík. Ég upplifi mig sem einhvern illa á meðan hún er gordjöss týpa sem fór í ungfrú Ísland,“ segir Bjössi.

„Ég sá hann bara þarna og vissi ekkert hver hann var. Ég varð bara strax sjúk í hann og ég held ég hafi verið í hálft ár að reyna finna hann aftur af því ég bara gat ekki hætt að hugsa um hann. Þetta var í fyrsta skipti sem ég vissi bara að ég hafi séð manninn minn.“

Það kom síðar í ljós að þau áttu sameiginlega vini og nokkrum mánuðum síðar lágu leiðir þeirra saman á staðnum Vegamótum þar sem Íris ákvað að láta til skarar skríða.

„Ég var búin að vera reyna við hann allt kvöldið og hann sá það ekki. Hann var bara að tala við vini sína og ég var bara halló! Ég hef aldrei fengið svona mikla höfnun áður. Samt voru alveg aðrir strákar sem voru sjúkir í mig, en hann? Ekki séns! Hann bara sá mig ekki.“

Bjössi hafði hins vegar alveg séð Írisi og þótti hún gullfalleg. Það hvarflaði bara ekki að honum að hann ætti séns í hana, þangað til hann fékk óvænt símtal þegar hann var á leiðinni heim.

„Þá hringir Jón Atli félagi minn og segir „heyrðu viltu ríða?“ og hann segir mér frá þessari stelpu og ég segi „Ha? Hún? Hún er geggjað sæt!“ Þetta voru öðruvísi tímar. Við fórum ekki heim að ríða ég ætla bara að segja það, en við gistum heima hjá Jóni Atla og þar kyssti ég hana fyrst.“

Þau byrjuðu fljótlega saman en við tók tímabil þar sem Bjössi var mikið á tónleikaferðalagi og eiga þau mörg falleg bréf frá þessum tíma.

Hefur alltaf viljað berjast fyrir sambandinu

Á sinni tæplega tuttugu ára sambandstíð hafa þau eignast þrjú börn með talsverðu millibili. Þau hafa gengið í gegnum hæðir og lægðir en eru dugleg að rækta sambandið. Þau stunda saman jóga, hlusta mikið á tónlist og eru andlega þenkjandi.

„Við erum á góðum stað núna af því við erum dugleg að vinna í okkur. En þegar það koma erfiðir tímar þá erum við bara dugleg að fara til þerapistans okkar og vinna í því sem kemur upp. Það er svo dýrmætt og fallegt að fara saman til þerapista og fá einhvern þriðja aðila til þess að hjálpa okkur,“ segir Íris.

„Það sem ég elska við okkar samband er að ég hef alltaf viljað berjast fyrir því. Ég hef aldrei viljað gefast upp þrátt fyrir miklar mótbárur og stóra veggi. Ég hef alveg verið pirraður út í hana og verið ósáttur en ég bara sé ekki sólina fyrir henni.“

Hætti með henni og fattaði þá að hún væri sú eina rétta

Þau segjast bæði vera rómantísk á sinn eigin hátt. Bjössi er til dæmis duglegur að lesa fyrir Írisi og færa henni kaffi í rúmið en gefur aftur á móti sjaldan gjafir.

„Ég held að rómantík sé svolítið bara virðing. Hluturinn gjöf er líka rómantískur og ég er svona að æfa mig að gefa blóm. Ég fatta bara ekki alveg conceptið, því blóm deyja,“ segir hann.

Þau eiga þó fjölmörg rómantísk augnablik úr sínu sambandi og segir Bjössi frá því þegar hann áttaði sig almennilega á því að Íris væri konan í sínu lífi. Hann hafði verið á slæmum stað í lífinu og tók þá ákvörðun að hringja í Írisi og segja henni upp.

„Þetta var alveg glatað. En þetta er svo fallegt af því að svo fer ég í myndatöku og er að labba niður í myndastúdíóið og ég vissi að hún væri að vinna í Kaupfélaginu. Það er hellirigning og ég stoppa þarna fyrir utan Kaupfélagið og ég sé hana og hugsa bara: Hvað er ég búinn að gera? Ég tók upp símann á leiðinni heim og hringdi í hana og spurði hvort við gætum hist og við höfum verið saman síðan þá.“

„Nú er ég farin og þú ræður hvað þú gerir“

Í þættinum segja þau einnig frá því hvernig það er Írisi að þakka að Bjössi fór út í leiklistina. Hún var staðráðin í því að fara erlendis og læra ljósmyndun en var alltaf að bíða eftir Bjössa sem var fastur heima vegna tónlistarinnar.

„Þegar ég var búin með stúdentinn þá bara gat ég ekki meira. Þá tók ég bara ákvörðun: Nú er ég farin og þú ræður hvað þú gerir! Samt gat ég aldrei hætt með honum, ég hef alltaf verið svo sjúk í hann. En ég hugsaði bara annað hvort dey ég í einhverju sambandi eða þá fylgi draumnum og sé hvað hann gerir.“

Sú ákvörðun reyndist þeim báðum mikið gæfuspor því Bjössi elti Írisi út og skráði sig í leiklistarnám.

Bjössi og Íris hafa verið saman frá árinu 2002.

Íris er alin upp hjá föður sínum og afa og hefur því alltaf verið passað einstaklega vel upp á hana. Í þættinum rifja þau upp hvernig það var þegar Íris kom heim með nýja kærastann og þungarokkarinn Bjössi í Mínus mætti föður hennar í anddyrinu.

„Þarna var litla stelpan hans bara byrjuð með einhverjum fokking rokkara. Ég held það hafi ekki verið í kortunum, ég held það hafi frekar verið læknir eða lögfræðingur eða eitthvað svoleiðis, bara ekki ég. Ég stóð þarna í anddyrinu og var kynntur og þá kemur hann svona að mér, stór og sterkur maður og hann kemur og tekur í hálsmálið á mér, skellir mér upp við vegg og lyftir mér upp. Ég man bara að fæturnir á mér lyftust frá gólfinu.“

„Síðan segir hann við mig þessi merku orð „ef þú særir dóttur mína þá drep ég þig“ og lét mig síðan detta í gólfið.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við þau Bjössa og Írisi í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.