Jólakortið skartar fallegri fjölskyldumynd þar sem hertogahjónin af Sussex sjást halda á syni sínum Archie og dóttur sinni Lilibet.
Myndin er tekin af ljósmyndaranum Alexi Lubomirski á heimili fjölskyldunnar í Santa Barbara í sumar. En Lubomirski er einnig sá sem myndaði brúðkaup hertogahjónanna árið 2018.
Lilibet Diana fæddist þann 4. júní á þessu ári og hafa hjónin ekki birt neina mynd af henni þar til nú. Það má því ætla að fjölmargir hafi beðið í eftirvæntingu eftir þessari mynd.
„Á þessu ári, 2021, kom dóttir okkar Lilibet í heiminn. Archie gerði okkur að foreldrum en Lili gerði okkur að fjölskyldu,“ stendur á jólakortinu.
Þetta verða önnur jólin sem hertogahjónin halda í Kaliforníu eftir að þau fluttust búferlum til Bandaríkjanna á síðasta ári.
