Í lok síðasta árs gekk Skeljungur frá sölu á Magni til Sp/f Orkufélagsins og í kjölfarið viku Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, og Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður, úr stjórn Magns.
Endanlegt kaupverð nam 12,2 milljörðum króna en Skeljungur er skuldbundinn til að endurfjárfesta 2,8 milljörðum króna í Orkufélaginu gegn því að eignast ríflega 48 prósenta hlut. Magn rekur 11 smásölu- og bensínstöðvar víðs vegar um Færeyjar ásamt því að vera leiðandi í sölu eldsneytis til húshitunar.
Í frétt færeyska miðilsins kemur fram að Íslendingar eigi 60 prósent í Orkufélaginu. Uppstokkun stjórnarinnar ber með sér að eigendur útgerðarinnar Eskju séu, ásamt Þorvaldi, á meðal íslenskra fjárfesta sem eiga 12 prósenta hlut á móti Skeljungi.
Þorsteinn Kristjánsson og Björk Aðalsteinsdóttir, aðaleigendur Eskju, tóku þátt í fjármögnun fjárfestingafélagsins Strengs, sem eignaðist rétt rúmlega helmingshlut í Skeljungi í byrjun árs 2021. Lögðu þau fjárfestingafélaginu til 485 milljónir króna.
Þorvaldur hefur stundað atvinnurekstur í Færeyjum frá árinu 2006. Þar rekur hann meðal annars steypustöð og kranaþjónustu.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.