Lífið

„Þetta er sjúkdómur sem er að drepa mig“

Elísabet Hanna Maríudóttir skrifar
Binni Glee ræðir matarfíknina sem hefur fylgt honum í gegnum tíðina.
Binni Glee ræðir matarfíknina sem hefur fylgt honum í gegnum tíðina. Stöð 2+

Raunveruleikastjarnan Brynjar Steinn, betur þekktur sem Binni Glee, hefur gefið út yfirlýsingu um það að hann ætli að leita sér aðstoðar við matarfíkn sem sé að drepa hann. Matarfíknin hefur ágerst hjá honum síðustu mánuði og núna finnst honum vera kominn tími til þess að fá aðstoð.

Binni hefur áður rætt það opinberlega þegar hann ákvað að setja heilsuna í fyrsta sæti og fór á ketó mataræðið. Á mataræðinu missti hann fimmtíu kíló á tólf mánuðum áður en hann sagði skilið við það. 

Nú virðist vera komið að tímamótum hjá honum í leitinni að bættri heilsu en matarfíknin hefur farið stigversnandi síðustu mánuði. Binni lýsti því yfir í gær að í dag sé dagurinn sem hann ætli loksins að leita sér hjálpar við matarfíkninni og taka því alvarlega.

„Þetta er sjúkdómur sem er að drepa mig,“

segir hann í einlægri færslu á Twitter miðli sínum. Á miðlinum má sjá að Binni nýtur mikils stuðnings frá fylgjendum sínum sem hafa allir trú á honum í sinni vegferð. 

„Það leið næstum yfir mig í gær og ég á erfitt með að anda og heilsan mín er orðin geðveikt slæm,“ segir Binni þegar hann er spurður hvað hafi orðið til þess að hann hafi ákveðið að leita sér hjálpar.

„Það þarf bara að tala um þetta og opna umræðuna því þetta er ekki djók og þetta er alveg alvarlegt. Þetta er sjúkdómur og það er fólk að díla við þetta,“ 

segir Binni sem vonast til þess að geta hjálpað öðrum í sömu sporum með því að tala um sína upplifun. Hann er orðinn þreyttur á því að hugsa stanslaust um mat og líða eins og hann þurfi að fela það sem hann borðar fyrir öðrum og vill takast á við aðstæðurnar.

Matarfíknin hefur fylgt honum í gegnum tíðina en hann komst á ágætan stað andlega og líkamlega þegar hann var á ketó mataræðinu. Eftir að hann hætti á ketó í júní í fyrra fór þó fíknin að ágerast og varð enn alvarlegri en hún var áður.

„Ég var einu sinni að borða pizzu, bara heila pizzu og ég borðaði svo mikið, svo hratt líka að ég bara ældi yfir pizzukassann. Þetta var bara hrikalegt,“ 

segir hann um sjúkdóminn sem hefur versnað til muna síðustu mánuði. Hann segir að uppköstin hafi ekki verið hluti af átröskuninni fyrr en í október á síðasta ári og það hafi hjálpað honum að átta sig á því að núna sé rétti tíminn til þess að fá aðstoð.

Binni Glee ætlar að endurheimta heilsuna.VÍSIR/ELÍN GUÐMUNDS

Binni hefur sjálfur reynt að ná tökum á sjúkdómnum síðustu vikur, meðal annars með því að reyna að komast aftur á ketó mataræðið en án árangurs. Hann segist hafa náð þremur góðum dögum en endað svo á því að kaupa pizzu, smákökur og pepperoni taco sem endaði með ofáti.

„Ég lá svo uppi í rúmi og leið ógeðslega illa og byrjaði þá að skoða hjálp því ég var bara, þetta er ekki í lagi sko," 

segir hann um gærdaginn sem varð til þess að hann bókaði sér tíma hjá Matarfíknarmiðstöðinni. „Ég vissi ekki að þetta væri til og ég var bara að googla og fann þetta.“ Segir hann um miðstöðina sem sérhæfir sig í að aðstoða fólk sem á í óheilbrigðu sambandi við mat.

„Ég er svona þannig að ef ég vil gera eitthvað og vil standa við það þá þarf ég að tala um það eða skrifa einhversstaðar af því að þá get ég ekki bakkað út, þess vegna ákvað ég bara, okei ég ætla að tweeta þessu. Og núna get ég ekki bakkað út. Ég er að fara að fá hjálp og er að fara að gera þetta.“

Binni fer í fyrsta viðtalið sitt hjá MFM miðstöðinni á næstu dögum sem verður fyrsta skrefið hjá honum í leitinni að bættri heilsu. Eflaust getur hann verið innblástur fyrir aðra í sömu sporum og við óskum honum góðs gengis með verkefnið sem er framundan. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×