Edith Gunnarsdóttir hefur starfað sem jógakennari í mörg ár og er auk þess menntuð í sálfræði og heilbrigðisvísindum. Hún mætti í Bítið á Bylgjunni í dag og sagði frá mögulegum heilsufarslegum og andlegum ávinningi þess að stunda jóga.
„Þegar ég tók mastersverkefnið mitt þá kom eiginlega ekkert annað til greina en að rannsaka jóga, þannig að ég skoðaði áhrif jóga og jóganidra-djúpslökunar á þunglyndi, kvíða og streitu,“ útskýrir Edith.
„Við sem erum að kenna jóga við vissum náttúrulega hvernig þetta myndi fara, en niðurstöðurnar voru frábærar.“
Einkennin niður um helming
Edith gerði bæði megindlega og eigindlega rannsókn og segir að hún sé sú fyrsta á þessu viðfangsefni hér á landi.
„Jóga í grunninn, við erum ekki að gera neitt annað en að efla eigin líkamsstarfssemi. Það er talið að jóga leiðrétti taugakerfið.“
Hún segir að breyting verði á svæðum í heilanum þegar fólk stundar til dæmis jóganitra. Edith segir að hennar niðurstöður hafi sýnt vel áhrifin sem jóga getur haft á andlega líðan fólks.
„Þátttakendur voru að draga úr einkennum þunglyndi, kvíða og streitu um allt að fimmtíu prósent.“
Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.