Klinkið

Stokkað upp hjá Sjálfstæðismönnum í Kópavogi

Ritstjórn Innherja skrifar
Ármann Kr. Ólafsson ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs en hann hefur verið bæj­ar­full­trúi allt frá 1998 og bæj­ar­stjóri Kópavogs frá 2012.
Ármann Kr. Ólafsson ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs en hann hefur verið bæj­ar­full­trúi allt frá 1998 og bæj­ar­stjóri Kópavogs frá 2012.

Útlit er fyrir talsverða endurnýjun á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fyrir bæjar- og sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor.

Ármann Kr. Ólafsson, sem hefur verið bæjarstjóri Kópavogs frá árinu 2012, tilkynnti nokkuð óvænt fyrr í þessum mánuði að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs sem oddviti Sjálfstæðismanna. Fleiri bæjarfulltrúar flokksins í þessu næst stærsta sveitarfélagi landsins eru sömuleiðis sagðir ekki hafa hug á því að sækjast eftir sæti á lista.

Það eru þau Margréti Friðriksdóttir, sem skipaði annað sæti á lista flokksins fyrir kosningarnar 2018 og er forseti bæjarstjórnar, og eins Guðmundur Geirdal en hann var í fimmta sæti Sjálfstæðismanna sem er talið að verði á ný baráttusæti flokksins í komandi kosningum.

Óvíst er hvort Hjördís Ýr Johnson ætli að bjóða sig fram á ný en ljóst þykir hins vegar að Karen Elísabet Halldórsdóttir muni sækjast eftir einu af efstu sætunum á lista Sjálfstæðismanna þegar prófkjör flokksins fer fram þann 12. mars næstkomandi.

Bæjarstjórastóllinn í Kópavogi er eftirsóttur biti og hafa ýmsir verið nefndir til sögunnar sem nýr leiðtogi Sjálfstæðismanna – flokkurinn fékk fimm menn kjörna í síðustu kosningum og myndar nú meirihluta með Framsóknarflokknum – en á meðal þeirra, eins og Innherji hefur áður greint frá, eru Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Sveinn Gíslason, formaður Breiðabliks. Þá sagði Viljinn frá því fyrir helgi að fjölmargir Sjálfstæðismenn hefðu skorað á Einar Þorsteinsson, fyrrverandi fréttamann á RÚV, að gefa kost á sér í prófkjöri flokksins.

Nafn Jóns Finnbogasonar, sem stýrir fyrirtækjasviði Arion banka og er fyrsti varamaður Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn, hefur sömuleiðis komið til tals sem mögulegur nýr oddviti flokksins. Jón hefur hins vegar komið þeim skilaboðum skýrt á framfæri við Sjálfstæðisfólk í Kópavogi á undanförnum dögum að hann hafi ekki í hyggju að blanda sér í þann slag.

Sigvaldi Egill Lárusson er sviðsstjóri fjármála- og rekstrarsviðs Hafró.

Brotthvarf margra núverandi bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna – flestir bendir til að minnsta kosti þrír af fimm muni ekki bjóða sig fram að nýju – þýðir að veruleg uppstokkun verður á lista flokksins fyrir komandi kosningar.

Flokkurinn er sagður horfa til þess að fá nýtt fólk, einkum ungt barnafólk í bænum, til að gefa kost á sér ofarlega á sæti listans og í þeim efnum hafa meðal annars nöfn Andra Steins Hilmarssonar, varabæjarfulltrúa og starfsmanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og Sigvalda Egils Lárussonar, sviðsstjóra fjármála- og rekstrarsviðs Hafrannsóknastofnunarinnar, verið nefnd. Sambýliskona Sigvalda, Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tix.is á Íslandi, mun sömuleiðis hafa uppi áform að blanda sér í bæjarpólitíkina en þá fyrir annan flokk, Viðreisn, en hann hefur nú á að skipa tveimur bæjarfulltrúum.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir

Ármann hættir sem bæjarstjóri í vor

Ármann Kr. Ólafsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri Kópavogs, mun ekki sækjast eftir endurkjöri í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Hann segir tímabært að einhver annar taki við keflinu.






×