Íslenski boltinn

Óskar Hrafn gæti mætt syni sínum í beinni á Stöð 2 Sport

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Eyjólfsson og félagar í Breiðabliki fagna hér marki í Evrópukeppninni síðasta sumar.
Gísli Eyjólfsson og félagar í Breiðabliki fagna hér marki í Evrópukeppninni síðasta sumar. Vísir/Hafliði Breiðfjörð

Karlalið Breiðabliks er fulltrúi Íslands á Atlantic Cup sem fer fram á Algarve í Portúgal Kópavogsliðið mætir þar mörgum sterkum erlendum liðum.

Blikar spila við þrjá þeirra en það eru enska liðið Brentford B og svo dönsku liðin Midtjylland og FCK.

Nú er orðið ljóst að Stöð 2 Sport sýnir leiki Breiðabliks beint.

Þetta er í fyrsta sinn síðan 2014 sem íslenskt lið tekur þátt í þessu árlega æfingamóti á suðrænum slóðum en bæði FH og Breiðablik voru með á mótinu 2014. FH töpuðu þá öllum þremur leikjum sinum en Blikar unnu einn, gerðu eitt jafntefli og töpuðu einum.

Breiðabliksliðið missti frá sér Íslandsmeistaratitilinn í blálokin á síðasta tímabili en var það lið í deildinni sem skoraði flest mörk og var líka með tvöfalt betri markatölu en Íslandsmeistarar Víkings. 

Blikar ætla sér því örugglega stóra hluti í sumar og hér um að ræða mikilvæga undirbúningsleiki fyrir liðið. Breiðablik stóð sig mjög vel í Evrópukeppninni síðasta sumar og hefur því verið að sanna sig á alþjóðlegum vettvangi.

Svo skemmtilega vill til að lokaleikur Blika á Atlantic Cup er á móti danska liðinu FC Kaupmannahöfn en þar gæti þjálfarinn Óskar Hrafn Þorvaldsson mætt syni sínum Orra Stein Óskarssyni.

Orri Steinn hefur raðað inn mörkum með nítján ára liði FCK og hefur fengið tækifæri með aðalliði félagsins á þessu undirbúningstímabili.

  • Leikir Blikar sem verða sýndir beint á Stöð 2 Sport:
  • 3. febrúar klukkan 19.30: Breiðablik – Brentford B
  • 6. febrúar klukkan 19.30: Midtjylland – Breiðablik
  • 11. febrúar klukkan 16.00: Breiðablik – FCK



Fleiri fréttir

Sjá meira


×