Innherji

Langflestir telja taumhald peningastefnunnar of laust

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans fer fram 9. febrúar næstkomandi.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en næsti vaxtaákvörðunarfundur bankans fer fram 9. febrúar næstkomandi. Stöð 2/Egill

Mikill meirihluti markaðsaðila á skuldabréfamarkaði telur að taumhald peningastefnu Seðlabanka Íslands sé of laust um þessar mundir, eða 76 prósent aðspurðra, samkvæmt nýrri könnun bankans. Í nóvember var hlutfallið 56 prósent.

Þá telja markaðsaðilar – bankar, lífeyrissjóðir og verðbréfa- og fjárfestingasjóðir – að meginvextir Seðlabankans hækki í 2,5 prósent á yfirstandandi ársfjórðungi og um 0,25 prósentur til viðbótar í hverjum fjórðungi sem eftir er árs og verði 3,5 prósent í árslok 2022. Í kjölfarið vænta þeir þess að vextirnir haldist óbreyttir ári síðar.

Þetta eru talsvert hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í fyrri könnun bankans í nóvember en þá væntu þeir þess að meginvextirnir yrðu 2,5 prósent eftir eitt ár og 3 prósent að tveimur árum liðnum.

Könnun Seðlabankans náði til 29 markaðsaðila og var svarhlutfallið 86 prósent.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5 prósent í janúar á þessu ári, þvert á allar spár greinenda, og mælist tólf mánaða verðbólga því 5,7 prósent. Hefur árstaktur verðbólgunnar ekki verið meiri frá því í apríl árið 2012. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hefur rokið upp að undanförnu, einkum á styttri endanum, og nemur hækkunin frá áramótum á bilinu um 40 til 70 punktum.

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar telji að verðbólgan muni haldast að meðaltali í 5 prósent á fyrsta fjórðungi ársins en hjaðni á næstu mánuðum og verði 4,7 prósent á öðrum ársfjórðungi 2022.

Verðbólguvæntingar til tveggja og fimm ára hafa hækkað frá síðustu könnun og mælast 3 prósent. Verðbólguvæntingar til tíu ára hafa einnig hækkað og gera ráð fyrir 2,75 prósent verðbólgu. Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar hækki á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 140 krónur eftir eitt ár.

Markaðsaðilar búast við því að launahækkanir í komandi kjarasamningalotu í lok ársins verði minni en í yfirstandandi lotu. Miðað við miðgildi svara gera þeir ráð fyrir að launavísitalan hækki að meðaltali um 5 prósent á ári í næstu samningalotu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×