Innherji

Stjórn Icelandair vill kaupaukakerfi til að sækja og halda lykilstjórnendum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair

Stjórn Icelandair Group mun leggja til á komandi aðalfundi flugfélagsins að innleitt verði kaupaukakerfi sem felur í sér bæði beinar kaupaukagreiðslur og kauprétti á hlutabréfum félagsins. Þetta kemur fram í fundarboði sem Icelandair sendi út eftir lokun markaða í dag. 

Samkvæmt tillögu stjórnar geta lykilstjórnendur Icelandair átt rétt á árlegum kaupaukagreiðslum sem verða háðar tilteknum árangursmælikvörðum. Hver kaupaukagreiðsla getur að hámarki numið 25 prósentum af föstum árslaunum viðkomandi stjórnanda.

„Uppfærð stefna endurspeglar viðleitni fyrirtækisins til að sækja og halda framúrskarandi starfsmönnum, og stilla hagsmuni þeirra í samræmi við hagsmuni fyrirtækisins og hluthafa þess,“ segir í greinargerð með tillögunum.

Einnig er lagt til að framkvæmdastjórum og öðrum völdum lykilstjórnendum Icelandair verði boðnir kaupréttir. Samkvæmt tillögunni getur Icelandair úthlutað að hámarki 900 milljónir hluta á næstu þremur árum en úthlutun á þessu ári verður að hámarki 250 milljónir hluta. Miðað við gengi félagsins í dag nemur markaðsvirði hlutanna um 2 milljörðum króna.

Tillögur stjórnarinnar um kaupaukakerfi eru settar fram þremur dögum eftir að Icelandair upplýsti umað félagið væri búið að tilkynna lánveitendum og íslenska ríkinu um uppsögn á 120 milljóna dala lánalínu með ríkisábyrgð sem verið hefur í gildi síðan í september 2020 þegar hlutafjárútboð fyrirtækisins fór fram.

Við nýtingu kaupréttar er miðað við hlutabréfagengi Icelandair í lok þess dags sem kauprétturinn var veittur og við það bætast 3 prósenta árlegir vextir. Úthlutun færi fram árlega og væri háð frammistöðu viðkomandi starfsmanns á árinu á undan.

Það er mat tilnefningarnefndar Icelandair Group, byggt á viðtölum sem nefndin hefur að undanförnu átt við meðal annars stjórnarmenn flugfélagsins, að þörf sé á öflugri áætlun til að minnka starfsmannaveltu í stjórnunarstöðum hjá fyrirtækinu ásamt því að endurskoða útfærslu starfskjara. Þetta kom fram í skýrslu tilnefningarnefndar Icelandair Group sem Innherji greindi frá fyrr í vikunni. 

Nefndin tók fram að það væri „viðvarandi áhættuþáttur“ fyrir Icelandair Group að eiga á hættu að missa frá sér lykilstarfsmenn sem fengju mögulega ekki nægjanlega vel greitt fyrir störf sín með tilliti til mikils vinnuálags og umfangsmikillar ábyrgðar.

Guðmundur Hafsteinsson stjórnarformaður

Í skýrslunni var rifjað upp að þrír af sjö framkvæmdastjórum félagsins hefðu sagt upp störfum eftir síðasta aðalfund Icelandair Group í mars í fyrra. Þar er nefndin að vísa til þeirra Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur, sem var fjármálastjóri, Birnu Ósk Einarsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs, og Jens Þórðarsonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs.

Þau hættu öll hjá Icelandair á tímabilinu frá maí til október á árinu 2021 og réðu sig til nýrra starfa.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Icelandair Group kemur fram að laun og hlunnindi sjö manna framkvæmdastjórnar flugfélagsins hafi numið samtals 1.940 þúsund Bandaríkjadölum á árinu 2021, jafnvirði 243 milljóna króna á gengi dagsins í dag, og hækkuðu þær greiðslur um 10 milljónir frá fyrra ári. Það jafngildir því að launagreiðslur til framkvæmdastjóra hjá félaginu hafi numið að meðaltali um 35 milljónum á síðasta ári, eða um 2,9 milljónir króna á mánuði.

Laun og hlunnindi Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, hækkuðu um 163 þúsund dali á liðnu ári og voru samtals 518 þúsund dalir, jafnvirði 65 milljóna króna, eða sem nemur mánaðarlaunum upp á 5,3 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×