Lífið

Sigur­vegari úkraínsku söngva­­keppninnar fer ekki í Euro­vision

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Alisha Pash segist hafa beðið í átta ár eftir því að fá að taka þátt í Eurovision fyrir hönd Úkraínu.
Alisha Pash segist hafa beðið í átta ár eftir því að fá að taka þátt í Eurovision fyrir hönd Úkraínu. Getty Images

Úkraínska ríkisútvarpið UA:PBC hefur hætt við að senda hina 28 ára gömlu Alinu Pash í Eurovision fyrir hönd Úkraínu. Söngkonan ferðaðist til Krímsskaga fyrir tæpum sjö árum síðan og ríkisútvarpið hafði ferðalagið sérstaklega til skoðunar.

Pash sigraði Vidbir, innlendu söngvakeppnina í Úkraínu fyrr á árinu, með laginu Shadows of Forgotten Ancestors. Ríkisútvarpið hafði ekki gert endanlegan samning við söngkonuna um þátttöku hennar í keppninni en nýlega bárust fregnir af ferðum hennar til Krímsskaga árið 2015.

Rússar náði yfirráðum Krímsskaga árið 2014 og strangar ferðatakmarkanir til landshlutans eru í gildi. Úkraínumenn mega einungis heimsækja landshlutann í gegnum sérstakar eftirlitsstöðvar og ólöglegt er að fara til Krímsskaga í gegnum Rússland.

Þá hefur spennan verið mikil á landamærum Rússlands og Úkraínu undanfarnar viku og óttast er að Rússar muni jafnvel ráðast inn í landið á næstu dögum. Rússar hafa komið upp miklum herafla og aukið viðbúnað sinn á landamærum Úkraínu síðasta mánuðinn.

Samkvæmt frétt Breska ríkisútvarpsins hefur söngkonan afhent ríkisútvarpinu gögn sem eiga að sýna fram á réttmæti ferðar hennar til Krímsskaga. Gögnin virðast ekki hafa þótt fullnægjandi enda hefur nú verið tilkynnt á vef Eurovision.tv að söngkonan fari ekki til Ítalíu á Eurovisionkeppnina í maí næstkomandi.


Tengdar fréttir

Glugginn til innrásar muni líklega lokast í þessari viku

Prófessor við Háskóla Íslands segir enn mikla óvissu um stöðu Rússlands og Úkraínu þrátt fyrir nýjustu yfirlýsingar Rússa. Glugginn til innrásar muni að öllum líkindum lokast í þessari viku en Rússar muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tapa ekki stöðu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.