Sport

Rúnar: Góður sigur gegn erfiðu liði Keflavíkur

Andri Már Eggertsson skrifar
Rúnar Ingi var ánægður með sigurinn
Rúnar Ingi var ánægður með sigurinn Vísir/Bára Dröfn

Njarðvík vann tíu stiga sigur á nágrönnum sínum í Keflavík 75-65. Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var hæstánægður með sigurinn.

„Þetta var mjög skemmtileg kvöldstund, hrós á okkar áhorfendur sem fylltu stúkuna og var frábært að taka sigur í kvöld. Það er erfitt að spila á móti Keflavík og er ég hrikalega stoltur af mínu liði,“ sagði Rúnar Ingi eftir leik.

Keflavík var með yfirhöndina í fyrri hálfleik en Njarðvík endaði á 12-2 áhlaupi og leit aldrei um öxl eftir það.

„Við byrjuðum að spila vörn sem við höfum lítið æft og það kom svo sannarlega í ljós og verðum við að æfa það betur því það vantaði upp á samskiptin, um leið og við fórum að gera það sem við þekktum þá gekk þetta betur.“

„Við enduðum með 28 tapaða bolta, það er erfitt að spila á móti þessar Keflavíkurvörn. Við tókum helling af fráköstum þar sem við nýttum hæðina okkar og finnst mér við geta gert meira af því í sókninni að nota hæðina okkar betur.“

Rúnar endaði á að hrósa sínu liði fyrir að hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppninni sem var fyrsta markmið Njarðvíkur í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×