„Það er klárt að þegar við lækkuðum vexti jukum við eftirspurn eftir fasteignum. En þær verðhækkanir sem eru að eiga sér stað núna stafa af framboði. Ef þú sérð minnkandi veltu og hækkandi verð þá stafar það af því að framboð er að dragast saman,“ sagði Ásgeir.
„Með þessu er ég ekki að segja að við höfum ekki áhrif á fasteignamarkaðinn,“ bætti hann við. Ég er bara að útskýra framboð og eftirspurn. Hinn raunverulegi þrýstingur á markaðinum er demógrafískur. Það er skortur á húsnæði af því að okkur er að fjölga svo mikið.“
Ásgeir benti einnig á að mikið hefði verið byggt árið 2019 og ekki hefði gengið vel að selja eignirnar. „Það var líka töluvert framboð af eignum árið 2020. Þegar við lækkuðum vexti hreyfðist fasteignaverð eiginlega ekki neitt í 8 eða 9 mánuði, það byrjaði að hækka 2021 þegar lagerinn var búinn.“
Vaxtalækkanir Seðlabankans í kórónufaraldrinum gerðu fjölda fólks kleift að komast af leigumarkaði með því að kaupa sína fyrstu fasteign. Áhrifin voru þau að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu stóð nokkurn veginn í stað megnið af faraldrinum.
Ásgeir sagði Seðlabankann hafa áhyggjur af leigumarkaðinum nú þegar aðhaldsaðgerðir bankans gagnvart fasteignamarkaðinum byrja að hafa áhrif.
Hinn raunverulegi þrýstingur á markaðinum er demógrafískur. Það er skortur á húsnæði af því að okkur er að fjölga svo mikið.
„Auðvitað óttumst við það að þegar við gerum [fasteignakaup] erfiðari þá muni það birtast á leigumarkaði.“
Þá var Ásgeir spurður hvort hann teldi æskilegt að megnið af lánveitingum í kórónufaraldrinum hefði farið í íbúðakaup fremur en fjárfestingu í atvinnulífinu. Hann benti á að fyrirtæki hefðu verið treg til að fjárfesta á meðan faraldurinn stóð sem hæst enda hefði óvissan verið mikil.
„Við getum haft áhrif á hvernig banka lána með því hvernig eiginfjárkvaðir við setjum á þá. Og það er klárlega eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur, hvernig við getum stoppað fasteignamarkaðinn án þess þó að koma í veg fyrir fjárfestingu.“