Frá þessu segir í tilkynningu frá félaginu. Þar kemur fram að mikill fjöldi kórónuveirusmita í lok síðasta árs hafi haft þau áhrif að Play hafi þurft að aðlaga flugáætlun sína í janúar og febrúar. Hafi félagið væntingar um að sætanýting aukist á næstu mánuðum.
„Þessar væntingar grundvallast á tveimur meginatriðum. Annars vegar því að í febrúar hélt bókunum áfram að fjölga, eins og raunin hafði verið í janúar, og það þrátt fyrir váleg tíðindi í heimsmálunum. Hins vegar er fyrirséð að tengiflug yfir Atlantshaf, sem hefst í vor, muni styrkja stöðuna enn frekar,“ segir í tilkynningunni.
Ennfremur segir að félagið sé í enn í góðri stöðu til að takast á við óvissuna, sem tengist heimsfaraldrinum og stríðsátökum í Evrópu, með sveigjanlegum rekstri.
„Hingað til hafa áhrif stríðsins á PLAY takmarkast við hækkun olíuverðs. Félagið hefur innleitt sérsniðna innkaupastefnu á olíuvörnum sem kynnt verður þegar félagið kynnir ársfjórðungsuppgjör sitt þann 17. mars næstkomandi,“ segir í tilkynningunni.