Í október síðastliðnum seldi Síminn Mílu til franska innviðasjóðsins Ardian. Heildarvirði Mílu var metið á 78 milljarða króna í viðskiptunum en áætlaður bókfærður hagnaður Símans af viðskiptunum er um 46 milljarðar króna. Viðskiptin eru enn til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu og er áætlað að þau gangi endanlega eftir um mitt þetta ár.
„Þetta eru háar upphæðir og mikil búbót fyrir hluthafa Símans,“ skrifar Jón. „Það er því óhætt að fullyrða að vel hafi tekist til við söluna, bæði hvað varðar að hámarka söluandvirðið og ekki síður hvað það varðar að fá reynslumikinn og öflugan aðila að rekstri Mílu.“
En að mati stjórnarformannsins hefur gætt „ákveðins misskilnings“ í umræðunni um sölu Mílu.
„Í fyrsta lagi er það svo að Síminn, og þar með Míla, hefur verið í einkaeigu síðan 2005. Hér er því ekki verið að selja þjóðareign eins og sumir hafa haldið fram. Ríkið fékk á sínum tíma meira fyrir Símann að núvirði heldur en virði Símasamstæðunnar er í dag,“ skrifar Jón.
Frá því Síminn var einkavæddur, eins og Jón bendir á, hefur samstæðan fjárfest fyrir á fimmta tug milljarða króna í fjarskiptainnviðum.
„Það er því ljóst að verðmæti Mílu byggir annars vegar á kaupverði Símans í einkavæðingunni árið 2005 og þeim fjárfestingum sem hafa átt sér stað síðan þá. Það er því ekki rétt að verið sé að selja eignir sem ríkið hefur fjármagnað.“
Eftir að tilkynnt var um að Síminn hefði náð samkomulagi við Ardian var sala innviðafyrirtækisins gagnrýnd af stjórnarandstöðuþingmönnum, einkum með tilliti til áhrifa sölunnar á þjóðaröryggi. Að sögn Jóns er þjóðaröryggi ekki stefnt í tvísýnu með viðskiptunum.
Hér er því ekki verið að selja þjóðareign eins og sumir hafa haldið fram
„Míla mun eftir sem áður þurfa að uppfylla ítarlegar kröfur hins opinbera um öryggi fjarskiptainnviða og skiptir þá engu máli hver eigandi Mílu er,“ segir hann.
„Ardian hefur að auki gert samkomulag við stjórnvöld um tilteknar kvaðir vegna mikilvægis fjarskiptaneta Mílu og starfshópur fjögurra ráðuneyta hefur komist að þeirri niðurstöðu að kaup Ardian ógni ekki þjóðaröryggi.“
Þá rekur Jón að með sölunni á Mílu sé verið að leysa upp fyrirkomulag sem „Samkeppniseftirlitið og keppinautar Símans hafa gagnrýnt í áraraðir sem sérstakt samkeppnisvandamál“ og vísar hann þar til lóðréttrar samþættingar fjarskiptainnviða á heildsölustigi og fjarskiptaþjónustu á smásölustigi.
Allir neytendur fjarskiptaþjónustu hér á landi munu njóta þess að sérhæfður aðili eins og Ardian, með þolinmótt fjármagn, mun hraða uppbyggingu fjarskiptakerfa
„Salan er því framfaraspor hvað varðar uppbyggingu fjarskiptamarkaðarins enda slitið fullkomlega á eignartengslin.“
Auk þess bendir hann á að á síðustu misserum hafi fjarskiptainnviðir víða um heim verið aðskildir frá fjarskiptaþjónustu og í kjölfarið sameinaðir eða samnýttir betur. Ástæðan sé að síauknar kröfur neytenda og hröð tækniframþróun kalli á miklar fjárfestingar í fjarskiptainnviðum sem ekki sé unnt að réttlæta nema sérhæfing og stærðarhagkvæmni sé til staðar.
„Í sölu Mílu felast því margvísleg tækifæri sem geta nýst öllum þeim sem koma að fjarskiptum á landinu. Allir neytendur fjarskiptaþjónustu hér á landi munu njóta þess að sérhæfður aðili eins og Ardian, með þolinmótt fjármagn, mun hraða uppbyggingu fjarskiptakerfa hér á landi og auka samnýtingu og hagkvæmni í leiðinni. Sala Mílu er því í alla staði rökrétt og góð niðurstaða fyrir alla hagsmunaaðila Símans.“