Calcalist vísar til nýlegra viðskipta með hlutabréf Rapyd en samkvæmt gengi bréfanna er verðmiðinn kominn upp í 15 milljarða dala. Rapyd er þar með orðið verðmætasta fjártæknifyrirtækið í Ísrael.
Þá rifjar viðskiptablaðið upp að Rapyd hafi ráðist í hlutafjáraukningu upp á 400 milljónir dala í byrjun árs 2021 en þá var fyrirtækið verðmetið á 2,5 milljarða Bandaríkjadala. Verðið hefur því sexfaldast á rúmu ári.
Síðasta sumar var tilkynnt að Rapyd og Arion banki hefðu náð samkomulagi um kaup Rapyd á færsluhirðinum Valitor. Kaupverðið er 100 milljónir dala, jafnvirði ríflega 13 milljarða króna, en yfirtakan er enn á borði Samkeppniseftirlitsins.
Samkvæmt frummati Samkeppniseftirlitsins á kaupum Rapyd og Valitor, sem birt var í janúar á þessi ári, hefur Rapyd tvöfaldað markaðshlutdeild sína hér á landi frá því að fyrirtækið kom inn á markaðinn með kaupum á Kortaþjónustunni í apríl 2020. Á sama tíma hefur markaðshlutdeild Saltpay, sem áður hét Borgun, dregist verulega saman.
Þessar niðurstöður taka hins vegar ekki með í reikninginn þær mótvægisaðgerðir sem Rapyd og Valitor hafa lagt til. Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar hvort tillögurnar dugi til að eyða skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni.
Samkvæmt tillögunum skuldbindur Rapyd sig til þess að selja nægilegt magn viðskiptasamninga til sterks kaupanda þannig að kaupandinn hefji samkeppni á markaðinum með sambærilega markaðshlutdeild og Rapyd hafði fyrir samrunann.
„Væntur kaupandi er leiðandi afl á íslenskum fjártæknimarkaði og munu kaupin efla stöðu hans enn frekar,“ segir í tillögum Rapyd