Innherji

Rapyd orðið verðmætasta fjártæknifélag Ísraels, verðið sexfaldaðist á rúmu ári

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Arik Shtilman, forstjóri og stofnandi Rapyd.
Arik Shtilman, forstjóri og stofnandi Rapyd. Rapyd

Ísraelska fjárftæknifyrirtækið Rapyd, sem tók yfir Kortaþjónustuna árið 2020 og bíður samþykkis yfirvalda vegna kaupa á Valitor, er verðmetið á 15 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði nærri tveggja billjóna íslenskra króna. Þetta kemur fram í frétt ísraelska viðskiptablaðsins Calcalist.

Calcalist vísar til nýlegra viðskipta með hlutabréf Rapyd en samkvæmt gengi bréfanna er verðmiðinn kominn upp í 15 milljarða dala. Rapyd er þar með orðið verðmætasta fjártæknifyrirtækið í Ísrael.

Þá rifjar viðskiptablaðið upp að Rapyd hafi ráðist í hlutafjáraukningu upp á 400 milljónir dala í byrjun árs 2021 en þá var fyrirtækið verðmetið á 2,5 milljarða Bandaríkjadala. Verðið hefur því sexfaldast á rúmu ári.

Síðasta sumar var tilkynnt að Rapyd og Arion banki hefðu náð samkomulagi um kaup Rapyd á færsluhirðinum Valitor. Kaupverðið er 100 milljónir dala, jafnvirði ríflega 13 milljarða króna, en yfirtakan er enn á borði Samkeppniseftirlitsins.

Samkvæmt frummati Samkeppniseftirlitsins á kaupum Rapyd og Valitor, sem birt var í janúar á þessi ári, hefur Rapyd tvöfaldað markaðshlutdeild sína hér á landi frá því að fyrirtækið kom inn á markaðinn með kaupum á Kortaþjónustunni í apríl 2020. Á sama tíma hefur markaðshlutdeild Saltpay, sem áður hét Borgun, dregist verulega saman.

Þessar niðurstöður taka hins vegar ekki með í reikninginn þær mótvægisaðgerðir sem Rapyd og Valitor hafa lagt til. Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar hvort tillögurnar dugi til að eyða skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni.

Samkvæmt tillögunum skuldbindur Rapyd sig til þess að selja nægilegt magn viðskiptasamninga til sterks kaupanda þannig að kaupandinn hefji samkeppni á markaðinum með sambærilega markaðshlutdeild og Rapyd hafði fyrir samrunann.

„Væntur kaupandi er leiðandi afl á íslenskum fjártæknimarkaði og munu kaupin efla stöðu hans enn frekar,“ segir í tillögum Rapyd


Tengdar fréttir

Valitor skilaði loks hagnaði á ársgrundvelli

Heildarafkoma Valitor nam um 353 milljónum króna á árinu 2021, samanborið við heildartap upp á um einn milljarð króna árið áður. Viðsnúningurinn á milli ára er því um 1,4 milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×