Innherji

Síminn segir merki um að Ljósleiðarinn fegri afkomuna

Síminn heldur því fram að stöðugar breytingar á afskriftartíma í bókhaldi Ljósleiðarans beri þess merki að verið sé að „fegra“ rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins. Ef afskriftartíminn væri nær því sem þekkist hjá sambærilegum fyrirtækjum á Íslandi og Norðurlöndunum væri „ólíklegt“ að Ljósleiðarinn myndi skila eiganda sínum, Orkuveitu Reykjavíkur, fjármunum á næstu áratugum.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ljósleiðarinn rekur víðfeðmt ljósleiðaranet á Suðvesturlandi sem til nær fleiri en hundrað þúsund heimila. Mynd/Ljósleiðarinn

Síminn heldur því fram að stöðugar breytingar á afskriftartíma í bókhaldi Ljósleiðarans beri þess merki að verið sé að „fegra“ rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins. Ef afskriftartíminn væri nær því sem þekkist hjá sambærilegum fyrirtækjum á Íslandi og Norðurlöndunum væri „ólíklegt“ að Ljósleiðarinn myndi skila eiganda sínum, Orkuveitu Reykjavíkur, fjármunum á næstu áratugum.

Þetta kemur fram í stjórnsýslukæru frá Símanum sem Innherji hefur undir höndum. Stjórnsýslukæran snýr að nýlegri ákvörðun Fjarskiptastofu sem komst að þeirri niðurstöðu að fjárhagslegur aðskilnaður Orkuveitunnar og Ljósleiðarans hefði verið í samræmi við lög á árunum 2018 til 2020. Síminn krefst þess að ákvörðun FST verði felld úr gildi í heild sinni og lagt verði fyrir Fjarskiptastofu að rannsaka fjárhagslegan aðskilnað milli OR og Ljósleiðarans með fullnægjandi hætti.

„Stöðugar breytingar á afskriftartíma eigna bera merki þess að verið sé að fegra rekstrarniðurstöðu Ljósleiðarans,“ segir í stjórnsýslukærunni. Ef endingartími eignar er ranglega metinn leiðir það til þess að afskriftir sem færðar er til gjalda í rekstrarreikningi verði ýmist vanáætlaðar eða ofáætlaðar, og gefi þar með ranga mynd af rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins.

Síminn telur augljóst að Fjarskiptastofa eigi að rannsaka hvort verið sé að framlengja afskriftartíma með ómálefnalegum hætti til þess að draga úr neikvæðri afkomu Ljósleiðarans.

Árið 2008 var afskriftartími dreifikerfis Ljósleiðarans 7 til 25 ár en síðan þá hefur hann verið lengdur í nokkrum skrefum og er nú 9 til 46 ár. Síminn leiðir líkur að því að afskriftartími ljósleiðaranetsins sé því um 46 ár.

„Á Íslandi þekkist almennt ekki afskriftartími sá sem Ljósleiðarinn byggir á, þ.e. 46 ár,“ segir í kærunni. Samkvæmt ársreikningi Tengis er nýtingartími og þar með afskriftartími ljósleiðara metinn 20 ár og Míla. dótturfélag Símans, miðar við 30 ár. Þá bendir Síminn á að í ársreikningi Telenor, sem veitir fjarskiptaþjónustu í Noregi og víðar, sé afskriftartími allt að 30 ár og það sama gildi um TDC Net í Danmörku.

„Símanum hefur ekki tekist að finna önnur dæmi um 46 ára afskriftartíma gagnaflutningskerfis. […] Þessar breytingar á afskriftartíma virðast eingöngu í þeim tilgangi að lagfæra afkomu félagsins þar sem engin málefnaleg rök eru fyrir þessum stöðugu breytingum,“ segir Síminn og bendir á að Ljósleiðarinn hafi skilað neikvæðu sjóðstreymi á hverju ári frá stofnun.

„Síminn telur augljóst að Fjarskiptastofa eigi að rannsaka hvort verið sé að framlengja afskriftartíma með ómálefnalegum hætti til þess að draga úr neikvæðri afkomu Ljósleiðarans. Blasir við að ef afskriftartími félagsins væri 30 ár eins og hjá öðrum félögum væri […] ólíklegt að félagið myndi skila eiganda sínum fjármunum á næstu áratugum.“

Símanum reiknast til að afskriftarhlutfall Ljósleiðarans hafi að meðaltali verið í kringum 3,5 prósent, eða um 28 ár. Stytting á meðalafskriftartíma niður í 23 ár, eins og það var á árunum 2011 til 2014, hefði haft þær afleiðingar að afskriftir árið 2020 hefðu verið 230 milljónum króna hærri. Hagnaður Ljósleiðarans, sem nam 320 milljónum árið 2020, hefði því lækkað niður í 90 milljónir.

Hagstæð lán í krafti eignarhaldsins

Síminn fullyrðir einnig að Ljósleiðarinn hafi fengið betri kjör á lánum heldur en markaðsaðilar enda séu enn ákvæði í lánasamningum sem heimili viðkomandi fjármálastofnun að gjaldfella lán Ljósleiðarans ef breyting verður á eignarhaldi fyrirtækisins.

Það blasir við að miðað við núverandi skuldir væru lánastofnanir með annað áhættuálag á lán gagnvart Ljósleiðaranum ef ekki væri fyrir eignarhald OR.

„Þetta þýðir með öðrum orðum að lánastofnanir, sem hafa veitt Ljósleiðaranum lán, hafa metið lánsáhættu með tilliti til núverandi eignarhalds. Lánveitendur eru fullkomlega meðvitaðir um takmarkaða áhættu sem felst í að lána Ljósleiðaranum þar sem OR mun alltaf koma félaginu til bjargar ef þörf krefur,“ segir í kærunni. 

„Það blasir við að miðað við núverandi skuldir væru lánastofnanir með annað áhættuálag á lán gagnvart Ljósleiðaranum ef ekki væri fyrir eignarhald OR.“

Greiddir vextir Ljósleiðarans árið 2020 námu 533 milljónum króna og miðað við útreikninga Símans voru meðalvextir félagsins því 3,9 prósent. Síminn leiðir líkur að því að lánakjör Ljósleiðarans hafi því einungis verið 35 punktum lakari en kjör Orkuveitu Reykjavíkur.

Fjarskiptastofa skoði samninga við Vodafone og Nova

Fái Síminn samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir sölu á Mílu til franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian gæti það haft töluverð áhrif á rekstur Ljósleiðarans. Á markaðssvæðum þar sem Ljósleiðarinn og Míla etja kappi hafa Vodafone og Nova beint viðskiptum sínum til Ljósleiðarans til þess að komast hjá því að styrkja keppinaut. Mikill meiri hluti tekna Ljósleiðarans kemur frá þessum tveimur fjarskiptafyrirtækjum.

Ef fram fer sem horfir og Míla verður sjálfstætt innviðafyrirtæki standa tengslin við Símann ekki lengur í vegi fyrir því að fyrirtækin versli við Mílu. Það eru því skýr sóknarfæri á markaðinum en árið 2021 komu 78 prósent tekna Mílu, sem voru alls 8,6 milljarðar króna, frá Símanum og tengdum félögum.

En að mati Símans virðist sem viðskiptalíkan Ljósleiðarans og árangur félagsins byggist á því að takmarka samkeppni. Telur Síminn nauðsynlegt að Fjarskiptastofa skoði og greini samninga milli Ljósleiðarans og annarra fjarskiptafyrirtækja, og leggi mat á það „hvort það sé mögulegt að samningarnir séu þess eðlis að ólíklegt sé að samkeppni verði um viðskiptin.“

Vanmeta áform Ljósleiðarans trekk í trekk

Ljósleiðarinn rekur víðfeðmt ljósleiðaranet á Suðvesturlandi sem til nær fleiri en hundrað þúsund heimila og er enn í uppbyggingarfasa. Að sögn Símans hefur Fjarskiptastofa margsinnis vanmetið fyrirætlanir Ljósleiðarans.

Sem vísbendingu um hversu langt áætlanir geta verið frá raunveruleikanum bendir Síminn á að fjárfestingar Ljósleiðarans geti þegar upp er staðið orðið tvöfalt hærri en uppgefið var fyrir árin 2018-2023. Fjarskiptastofa áætlaði árið 2019 að fjárfestingar Ljósleiðarans á þessu tímabili myndu nema um 7,5 milljörðum króna. 

„Í hvert sinn sem Fjarskiptastofa hefur skoðað starfsemi Ljósleiðarans og tengsl félagsins við Orkuveituna gerist það sama: Fjarskiptastofa vanmetur kerfisbundið fyrirætlanir Ljósleiðarans og raunverulegar aðgerðir fara síðan langt fram úr því sem Fjarskiptastofa hefur lagt til grundvallar.“






×