Hann segir umræðu um álagið ofan á miðaverð ekki hafa farið framhjá sér, en segir að það væri óábyrgt af honum að bregðast ekki við hækkandi olíuverði. Tilkynnt var um hækkun á eldsneytisálagi á farmiða keppinautarins Icelandair á föstudaginn.
„Óneitanlega bregður fólki við þegar það heyrir að verið sé að leggja sérstakt eldsneytisgjald á farmiðanna og umræðan hefur ekki farið framhjá okkur,” segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY í samtali við Innherja.
Gjaldið nemur á bilinu 1.300 til 2.200 krónur þegar flogið er frá Keflavíkurflugvelli til Evrópu eða Norður-Ameríku. Á heimleiðinni er gjaldið í mesta lagi 4.500 krónur samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu.
„Það er því miður óhjákvæmilegt að leggja þetta gjald á og væri í raun óábyrgt að gera það ekki því við erum að sjá fram á að hækkanir á olíuverði muni kosta okkur 1,3 milljarða á þessu ári,” skýrir hann frá og vísar til innrásar Rússa í Úkraínu og viðskiptaþvingana sem fylgdu í kjölfarið.
Í ársreikningi Play sem var birtur á dögunum kom fram að félagið tapaði um 2,9 milljörðum króna á síðasta ári.
Icelandair hækkar olíugjald ofan á sína farmiða
Á sama tíma geri áætlanir PLAY ráð fyrir um milljón farþegum á árinu. „Þannig er þetta verð reiknað. Við erum ekki að gera neitt öðruvísi en önnur flugfélög, þau leggja einnig á eldsneytisgjald, nema þeirra gjald er oftar en ekki hærra en okkar,” segir Birgir.
Icelandair tilkynnti á föstudag að sambærilegt gjald ofan á þeirra farmiða myndi hækka frá og með mánaðarmótum. Hækkar það úr 4.600 krónum í 5.100 krónur þegar flogið er til Evrópu og úr 8.900 krónum í 12.300 krónur þegar flogið er til áfangastaða í Norður-Ameríku.