„Ég held að Íslendingar séu bara mjög opnir fyrir fjölbreytileikanum og að allir séu einhvern veginn og alls konar.“
Sindri segist auðvitað ekki vera að gera lítið úr upplifun annarra.
„Við höfum bara aldrei fundið fyrir fordómum neins staðar, aldrei. Við erum bara mjög heppin að búa á þessu landi,“ útskýrir Sindri en hann er giftur og ættleiddi stúlku fyrir nokkrum árum með eiginmanninum. Í hlaðvarpinu Jákastið ræddi Sindri um líf sitt við Kristján Hafþórsson.
Rúðustrikaður og íhaldssamur
„Ég er nokkuð rúðustrikaður hvernig ég vil hafa hlutina,“ segir Sindri í viðtalinu þegar íhaldssemi hans berst í tal. Hann viðurkennir að ofvernda oft dótturina og fær einnig martraðir um að eitthvað komi fyrir hana.
„Maður verður samt að passa að börnin læri og hafi eitthvert sjálfræði og læri að reka sig á.“
Helst myndi hann samt vilja pakka henni inn í bóluplast (e. bubblewrap) og rúlla henni þannig út í lífið. Emilía Katrín, dóttir þeirra, kom til hjónanna í byrjun árs 2012, þá rúmlega þriggja ára. Í viðtalinu ræðir hann um foreldrahlutverkið, að taka barn í fóstur, sambandið, ferilinn, hótelástina, utanvegahlaup og margt fleira. Þáttinn má heyra á TAL hlaðvarpsveitunni og í spilaranum hér fyrir neðan. Þættirnir Jákastið koma út alla þriðjudaga.