Innherji

Fjarskiptastofa herðir tökin fyrir söluna á Mílu

Fjarskiptastofa hefur að undanförnu leitast við að setja meiri kvaðir á Símasamstæðuna þrátt fyrir að salan á Mílu sé langt á veg komin og þrátt fyrir að markaðshlutdeild samstæðunnar hafi farið minnkandi á síðustu árum. Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir óviðunandi að Fjarskiptastofa vinni út frá úreltum forsendum um markaðsstyrk samstæðunnar. Stofnunin sé föst í fortíðinni.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Orri Hauksson, forstjóri Símans. 

Fjarskiptastofa hefur að undanförnu leitast við að setja meiri kvaðir á Símasamstæðuna þrátt fyrir að salan á Mílu sé langt á veg komin og þrátt fyrir að markaðshlutdeild samstæðunnar hafi farið minnkandi á síðustu árum. Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir óviðunandi að Fjarskiptastofa vinni út frá úreltum forsendum um markaðsstyrk samstæðunnar. Stofnunin sé föst í fortíðinni.

„Fjarskiptastofa hefur alltaf haldið fram að setja þyrfti sérstakar íþyngjandi kvaðir á Símasamstæðuna vegna sameiginlegs eignarhalds Símans og Mílu. Gott og vel, sé svo ættu kvaðirnar þá að minnka þegar slíkt eignarhald verður ekki lengur fyrir hendi. En nú virðist hið gagnstæða vera að gerast. Þegar við erum einmitt í því ferli að skera á eignatengslin milli Símans og Mílu kýs stofnunin að reyna að bæta skyndilega við enn frekari kvöðum“, segir Orri.

Síminn og Míla hafa talið að „kerfisbundin slagsíða“ Fjarskiptastofu hafi litað samskipti og aðgerðir stofnunarinnar gagnvart Símasamstæðunni. Í aðdraganda þess að Síminn var skráður á hlutabréfamarkað árið 2015 þótti skráningaraðilum samstæðunnar vert að benda fjárfestum á áhættuna sem fælist í afstöðu Fjarskiptastofu gagnvart Símanum árin á undan.

Í skráningarlýsingu fjarskiptafélagsins var til að mynda vitnað í texta frá Fjarskiptastofu þar sem fram kom að stofnunin liti þannig á hlutverk sitt að henni bæri að sjá til þess að markaðshlutdeild Símasamstæðunnar minnkaði á völdum mörkuðum.

Samkvæmt [Fjarskiptastofu] virðist Míla annað hvort munu hækka verð, lækka verð, fjárfesta of mikið, fjárfesta of lítið, veita of góða þjónustu eða veita of slaka þjónustu. Hvað sem gerist verður það alltaf afar neikvætt

Sami forstjóri er enn yfir stofnuninni - Hrafnkell V. Gíslason hefur setið sem forstjóri Fjarskiptastofu, sem áður hét Póst- og fjarskiptastofnun, í tuttugu ár – en mikið vatn hefur runnið til sjávar á fjarskiptamarkaði frá skráningu Símans. Til dæmis hefur Ljósleiðarinn, sem er í eigu Reykjavíkurborgar og er helsti keppinautur Mílu, þanist út á höfuðborgarsvæðinu og náð nærri 60 prósenta markaðshlutdeild.

En það er sama hversu miklar breytingar verða á markaðinum, afstaða stofnunarinnar til fyrirtækja, manna og málefna helst óbreytt að sögn Orra.

Um miðjan desember á síðasta ári tók Fjarskiptastofa ákvörðun, sem stofnunin kaus að kalla áréttingu, um svokallað IP-MPLS kerfi Mílu, sem stýra gagnaumferð um fjarskiptanetin. Fjölmörg slík kerfi eru til á Íslandi og eru þau í eigu ýmissa fjarskiptafélaga. Ekkert þessara kerfa hefur verið undir kvöðum fram til þessa og það sama átti við um kerfi Mílu á meðan það var hjá Símanum.

Síminn seldi kerfið til Mílu í byrjun árs 2021 og tilkynnti Fjarskiptastofa í fyrrgreindri áréttingu í lok þess árs að kerfið væri nú komið undir kvaðir stofnunarinnar. Um er að ræða nokkuð íþyngjandi kvaðir, t.d. um upplýsingagjöf og eftirlit með gjaldskrá, sem kalla á mannskap og breytingu á upplýsingatæknikerfum. Ástæðan sem stofnunin gaf var sú að Míla lyti öðrum lögmálum en önnur fjarskiptafélög og að ljóst hefði mátt vera, samkvæmt texta frá Fjarskiptastofu frá því fyrir tæpum áratug, að ef kerfið væri í umsjá Mílu myndi það lúta kvöðum.

Eftir kæru frá Mílu komst úrskurðarnefnd fjarskiptamála að þeirri niðurstöðu að réttaráhrif ákvörðunar FST skyldu falla úr gildi. Áréttingin svokallaða væri í raun stjórnsýsluákvörðun sem krefðist þess að Fjarskiptastofa færi hina eðlilegu stjórnsýslulegu leið til að leggja þessar kvaðir á, það er að framkvæma fyrst markaðsgreiningu, veita fresti til umsagna, kærufresti o.s.frv.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var birt Fjarskiptastofu 11. febrúar í ár, en það var ekki fyrr en 8. mars að Fjarskiptastofa birti tilkynningu um niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar á heimasíðu sinni og að stofnunin héldi sig ekki við sína fyrri ákvörðun að svo komnu máli. Frá miðjum desember og fram til 8. mars , var ekki hægt að sjá annað á heimasíðu Fjarskiptastofu en að umrætt IP-MPLS kerfi Mílu væri undir íþyngjandi kvöðum. Á þessi tímabili var salan á Mílu sett í umsagnarferli hjá Samkeppniseftirlitinu.

„Þetta hafði þau áhrif að heil opinber stofnun, Samkeppniseftirlitið, og fjöldi fyrirtækja og lögfræðistofa úti í bæ, voru að byggja vinnu sína á forsendum sem ekki eru til staðar, vegna þess að Fjarskiptastofa ákvað að tilkynna ekki fyrr en eftir nokkra hríð að úrskurðarnefnd hefði tekið hinar nýboðuðu kvaðir Fjarskiptastofu úr sambandi,“ segir Orri.

Markaðsgreiningar Fjarskiptastofu eru ekki hugsaðar sem sagnfræðirit [...]. Úrelt gögn, frá þeim tíma þegar staða Símans og Mílu var mun sterkari en nú, nýtast til að rökstyðja [...] þyngri kvaðir en tilefni er til

Þá sendi Fjarskiptastofa nýlega sérstaka umsögn til Samkeppniseftirlitsins þar sem sölunni á Mílu til Ardian var fundið fjölmargt til foráttu að sögn Orra. Hann nefnir sem dæmi að Fjarskiptastofa haldi því fram að viðskiptasamband Símans og Mílu eftir söluna geti reynst skaðlegt fyrir borgarfyrirtækið Ljósleiðarann sem er helsti keppinautur Mílu.

„Síminn hefur verslað megnið af sínum nettengingum af Mílu frá upphafi og hefur aðeins nýlega fengið aðgang að kerfi Ljósleiðarans. Ef það er galli að mati Fjarskiptastofu að Síminn versli of mikið af Mílu þá magnast sá meinti galli klárlega ekki upp við söluna, nema síður sé, enda þá komið hreinræktað viðskiptasamband í stað eignarsambands í ofanálag,“ segir Orri.

Það sem einkennir umsögnina að hans sögn eru mótsagnarkenndar fullyrðingar sem stangast hverjar á við aðrar. Niðurstaðan virðist hafa verið fyrirframgefin og rökin fundin eftir á.

„Fjarskiptastofa segir annars vegar að Míla verði viðskiptalega svo tengd Símanum eftir söluna að félagið muni ekki sinna Sýn og Nova nægilega vel. En hins vegar telja þeir líka að Míla muni mögulega reyna að sækja svo mikil viðskipti til Sýnar og Nova að Ljósleiðaranum, sem er langstærsti birgi Sýnar og Nova í dag, standi ógn af sölunni. Sem er býsna langsótt fullyrðing og klárt að hvort tveggja getur ekki orðið raunin,“ segir Orri.

„Samkvæmt umsögninni virðist Míla annað hvort munu hækka verð, lækka verð, fjárfesta of mikið, fjárfesta of lítið, veita of góða þjónustu eða veita of slaka þjónustu. Hvað sem gerist verður það alltaf afar neikvætt að sögn Fjarskiptastofu fyrir einhvern, fyrst og fremst Ljósleiðarann, sem er skýr vísbending um að niðurstaða Fjarskiptastofu um fyrirtæki á markaði sé fyrirframgefin.“

Þá segir hann að það hafi lengið fyrir um langa hríð að stjórnsýslu Fjarskiptastofu sé ábótavant. Stofnunin hafi sinnt lögbundnum verkefnum sínum, svo sem greiningum á á fjarskiptamarkaði, afar seint og sé mörgum árum á eftir yfirlýstri stefnu í þeim efnum.

„Þessi vinnubrögð hafa verið tilefni gagnrýni á undanförnum árum, meðal annars frá Eftirlitsstofnun EFTA, en það hefur því miður ekki dugað til,“ segir Orri. Hann tekur fram að tæknifólk Símans vinni mjög vel með ýmsu fagfólki Fjarskiptastofu og því ljóst að innan stofnunarinnar viðgangist fagmennska og samvinnuvilji á sviði tæknimála.

„Hin lögfræðilega stjórnsýsla verður hins vegar að lagast því að markaðsgreiningar Fjarskiptastofu eru ekki hugsaðar sem sagnfræðirit, heldur eiga þær að greina stöðuna sem næst því í rauntíma. Úrelt gögn, frá þeim tíma þegar staða Símans og Mílu var mun sterkari en nú, nýtast til að rökstyðja röng inngrip og þyngri kvaðir en tilefni er til.“


Tengdar fréttir

Ljósleiðarinn segir fjárfestum að langur afskriftartími eigi fullan rétt á sér

Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, telur ekkert óeðlilegt við það að ljósleiðarakerfi fyrirtækisins sé afskrifað á 46 árum sem er nokkuð lengri afskriftartími en gengur og gerist hjá sambærilegum innviðafyrirtækjum. Í fjárfestakynningu fyrir skuldabréfaútboð bendir Ljósleiðarinn meðal annars á að rörakerfið, sem er stærsti kostnaðarliðurinn við lagningu ljósleiðara, geti nýst í meira en 50 ár.






×