Sport

Rúnar: Áttum glimrandi fyrri hálfleik

Andri Már Eggertsson skrifar
Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var afar kátur eftir sigur á Fjölni
Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var afar kátur eftir sigur á Fjölni Vísir/Vilhelm

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var afar ánægður með stórsigur í Dalhúsum 51-72. Úrslit leiksins þýddu að Njarðvík leiðir einvígið 1-2. 

„Við áttum glimrandi fyrri hálfleik þar sem við vorum mjög grimmar sóknarlega úr mismunandi áttum. Við sóttum á hringinn, hittum vel og þegar við erum í þessum gír þá er erfitt að eiga við okkur,“ sagði Rúnar afar kátur eftir leik.

Rúnar var afar ánægður með hvernig Njarðvík byrjaði síðasta leik og sama var upp á teningnum í kvöld. 

„Við vitum hvað Fjölnir vill gera sóknarlega og ef við náum að pressa skotin sem þvingar Fjölni til að skjóta yfir hendurnar á okkur, þá verður allt miklu auðveldara fyrir okkur þar sem við fáum auðveldar körfur hinu megin.“

Njarðvík var tuttugu og fjórum stigum yfir í hálfleik og var Rúnar ánægður með hvernig hans konur hleyptu Fjölni aldrei inn í leikinn.

„Við lögðum áherslu á að halda áfram að spila sömu vörn. Mér fannst koma smá augnablik þar sem við misstum tökin en það stóð yfir í stutta stund.“

„Mér fannst sóknarleikurinn aðeins detta niður og fundum við ekki alveg sama gír og í fyrri hálfleik en það kemur fyrir þegar þú ert með stórt forskot,“ sagði Rúnar að lokum sem er spenntur fyrir fjórða leiknum í Ljónagryfjunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×